Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:12:39 (71)

2003-05-27 21:12:39# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, DJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:12]

Dagný Jónsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Í nýafstöðnum kosningum lagði Framsfl. mikla áherslu á að Alþingi endurspeglaði þjóðfélagið. Framlag Framsfl. til þess var að tefla fram ungu fólki í öllum baráttusætum kjördæmanna. Þetta átak flokksins skilaði þremur fulltrúum nýrrar kynslóðar inn á Alþingi Íslendinga. Ekki einungis hefur flokkurinn á að skipa yngsta þingmanninum, heldur einnig yngstu þingkonunni. Þessi blanda af reynslu þeirra sem eldri eru og hugsjónum hinna yngri er afar mikilvæg.

Auk þessa jókst hlutur kvenna innan þingflokksins og er það vel enda er jafnrétti kynjanna eitthvað sem á að vera okkur eðlilegt. Góður maður sagði eitt sinn að til að svæfa óþægileg mál ætti að gera þau að jafnréttismálum. Þessi mikilvægi málaflokkur verður ekki svæfður enda er jafnréttisumræða í eðli sínu lýðræðisumræða. Nauðsynlegt er að fyrirtæki og opinberar stofnanir hefji strax vinnu að jafnréttismálum.

Kynslóð okkar sem yngri erum mun ekki þola það launamisrétti sem tíðkast á milli kynja. Við búum við að kynin skipta með sér verkum á heimilum. Engin skilgreind kvennastörf eins og eldamennska eða þrif eru í okkar samvistum og algengast er að báðir aðilar vinni fulla vinnu úti. Stjórnvöld þurfa að sýna góða fyrirmynd í þessum málaflokki og því þarf að gangast fyrir rannsóknum á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og vinna út frá þeim niðurstöðum áfram að því að jafna launamun kynjanna. Fyrir okkur er jafnrétti réttlæti.

[21:15]

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir skýrt að meðal markmiða sé að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms, án tillits til búsetu eða efnahags. Þetta segir margt um stefnu stjórnvalda í menntamálum. Þetta þýðir að skólagjöldum í ríkisreknum skólum sé hafnað og áfram verði unnið að því að tryggja aðgengi þeirra sem um langan veg þurfa að fara til að mennta sig. Liður í því er efling fjarnáms, en slíkt nám hefur verið eitt stærsta byggðamál síðari tíma og hefur fjarnámið haft í för með sér byltingu varðandi aðgengi fólks á námi og þá sérstaklega fyrir ungar konur. Fjarnámið þarf að þróa enn frekar í samvinnu við menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi.

Ánægjulegt er að sérstök áhersla verður lögð á sókn á sviði starfs- og verkmenntunar.

Varðandi háskólanám er gleðilegt að sjá þá flóru háskóla sem orðið hefur til á síðustu árum. Við viljum vera í fremstu röð menntaðra þjóða og til að halda því er nauðsynlegt að efla enn frekar háskólastigið. Við verðum að opna meira fyrir umræðu um háskólana og viðurkenna að samfélagið okkar og samtíminn gerir sífellt meiri kröfu um fjölþætta og staðgóða menntun. Undir þessum væntingum verðum við að standa og það ætlum við að gera. Stjórnvöld verða því að halda áfram að styðja við bakið á kennslu, rannsóknum og nýsköpun í landinu og það af myndugleika.

Jafnrétti til náms er skýr krafa okkar framsóknarmanna og gengur stjórnarsáttmálinn út á það hugtak. Liður í að tryggja það jafnrétti er endurskoðun laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Endurskoðunin felur í sér mörg tækifæri og munu þau verða nýtt. Einnig mun sjóðurinn huga að lækkun endurgreiðslubyrði námslána og ætti sú breyting að verða kærkomin fyrir marga einstaklinga og barnafjölskyldur í landinu.

Góðir áheyrendur. Næstu ár gefa okkur fyrirheit um tíma nýrra tækifæra og möguleika. Framsóknarflokkurinn mun ekki láta sitt eftir liggja og er tilbúinn að takast á við verkefni framtíðarinnar. --- Góðar stundir.