Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:17:21 (72)

2003-05-27 21:17:21# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, KolH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ný ríkisstjórn eða gömul ríkisstjórn. Í mínum huga er hún gömul og fremur lúin. Hún stendur fyrir gömul gildi og stjórnarsáttmálinn ber þess merki að gleymst hafi að opna glugga og hleypa sólskininu inn á stjórnarheimilið.

Hún er alveg réttmæt athugasemdin sem kom í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins á sunnudaginn var, þar sem segir að stjórnarsáttmálinn sé stuttur og í honum séu fæst stefnumál útfærð í smáatriðum sem geti haft þau áhrif að erfitt geti orðið fyrir almenning að halda stjórnarherrunum við efnið og minna þá á kosningaloforðin.

Raunar má segja að stuttur og óljós stjórnarsáttmáli geti að sama skapi gert stjórnarandstöðunni erfitt fyrir að veita ríkisstjórninni nauðsynlegt aðhald. Það er kannski enginn hissa á því að ráðherrarnir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson skuli setja málin fram með þessum hætti. Þetta er þeirra stíll. Þeir hafa ekki verið að leggja sig í líma við að hafa almenning með í ráðum, hvað þá að hleypa stjórnarandstöðunni að ákvörðunum sínum. Eða hvernig héldu þeir á málum gagnvart þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi þegar ákveðið var að elta Bandaríkin og Bretland út í gífurlega umdeilt árásarstríð suður í Írak? Þá var nú ekki samráðinu fyrir að fara í þeirri herför. Ekki frekar en í svo mörgum öðrum málum sem ríkisstjórn þessara tveggja ráðherra hefur tekist á við síðustu árin. Það tíðkast ekki hjá þessum herrum að leita ráða.

Framtíðarsýn framsækinna stjórnmálaflokka byggir hins vegar á samráði og samvinnu. Við vinstri græn höfum lagt áherslu á að fyrirmynda sé leitað í hugmyndafræði þeirri sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt grunn að með sínum viðamiklu alþjóðlegu ráðstefnum og má þar nefna hvort heldur sem er kvennaráðstefnurnar eða umhverfisráðstefnurnar sem haldnar hafa verið á síðustu árum. Á þeim vettvangi er allt undir samvinnunni komið og víðum sjóndeildarhring þeirra sem ráða för.

Það er heldur ekki hluti af framtíðarsýn þeirra stjórnmálaflokka sem standa að baki stjórnarsáttmálanum að verja sameiginlegar eignir þjóðarinnar sem hún hefur komið sér upp í gegnum árin og áratugina. Nei, sameiginlegar eignir þjóðarinnar hafa verið settar á markað, ein af annarri, hlutafélagavæddar, sem er ein af trúarsetningum stjórnarherranna, og síðan seldar í fyllingu tímans. Og það verður áfram haldið á sömu braut þótt eignunum í gullastokki þjóðarinnar fari nú ört fækkandi. Við megum gera ráð fyrir því að inn í þingið komi á þessu kjörtímabili endurlífgað frumvarp um hlutafélagavæðingu vatnsveitna þjóðarinnar, þar sem m.a. verður fjallað um arðsemiskröfu vatnsveitna. Þar verður fetað dyggilega í fótspor þeirra þjóða sem lengst hafa gengið í markaðsvæðingu á almannaþjónustu og gengið fullkomlega á svig við leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna sem hafa nýverið skilgreint vatn sem grundvallarmannréttindi og ekki beri að líta á það sem verslunarvöru.

Í upphafi máls míns gat ég um það hversu mikið skorti á að hugmyndir stjórnarsáttmálans væru útfærðar, eða hvað eiga skilaboðin að þýða til námsmannanna og þess fólks sem hefur lokið námi og er að takast á við að greiða niður námslánin sín? Ríkisstjórnin segist í sáttmálanum ætla að huga að lækkun endurgreiðslubyrði námslána. Með öðrum orðum, engin fyrirheit eru um neitt í þessum efnum. En þeir ætla að hugsa málin, stjórnarherrarnir.

Framsýnir stjórnmálaflokkar þora að sýna á spilin sín. Þeir setja markið hátt og varða leiðirnar þannig að trúverðugt sé að þeir geti náð markmiðum sínum. Við vinstri græn höfum ævinlega talað fyrir því að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði forskrift til framtíðar, vegvísir sem tryggi að sjónarmið náttúruverndar séu tekin inn í myndina við öll áform um nýtingu náttúruauðlinda, leiðabók um það hvernig Ísland geti orðið fyrirmynd annarra landa við að draga úr losun óæskilegra lofttegunda.

En ég get ekki varist þeirri hugsun, þegar lesinn er sá kafli stjórnarsáttmálans sem fjallar um rammaáætlunina, að verið sé að setja fram markmið sem fara vel á pappír en ekki sé ætlunin að fara eftir. Eða hvers vegna hafa stjórnarherrarnir aldrei svarað því hvaða stöðu þessi rammaáætlun þeirra muni hafa? Verður þetta eitthvert puntplagg, geymt ofan í skúffu, eða er hugmyndin sú að hér verði um bindandi áætlun til framtíðar að ræða? Ekki orð um það í stjórnarsáttmálanum.

Góðir Íslendingar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er framsækinn stjórnmálaflokkur með skýra framtíðarsýn, sýn um sjálfbært samfélag þar sem jöfnuður ríkir, þar sem velferðarkerfið stendur undir nafni, þar sem skattkerfið er notað til kjarajöfnunar, þar sem konur og karlar standa jafnfætis, hvort heldur litið er til atvinnutækifæra, launa eða möguleika til innihaldsríkra samvista með börnunum sínum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð á sér sýn til framtíðar um sjálfbært atvinnulíf þar sem fjölbreytni verður lykill að farsælli uppbyggingu atvinnutækifæra um land allt. Þar sem hlúð verður að lággróðrinum og séð til þess að hann hafi þau skilyrði sem þarf til öflugs vaxtar en hafnað dekri við erlenda auðhringa.

Góðir Íslendingar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur sýn til framtíðar um að mannréttindi og lýðræði verði dýrmætir hornsteinar velferðarsamfélags barnanna okkar og í þeim anda munum við sinna störfum okkar á Alþingi Íslendinga á nýju kjörtímabili. --- Góðar stundir.