Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:23:37 (73)

2003-05-27 21:23:37# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:23]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Nú að loknum alþingiskosningum hefur ný ríkisstjórn tekið við völdum. Þó að ekki sé að finna miklar breytingar á ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar er margt sem bendir til breytinga við meðferð ýmissa mála. Meiri hlutinn er að mínu mati mun veikari en á síðasta kjörtímabili. Þeir málaflokkar er voru í hámæli í undangenginni kosningabaráttu munu án efa setja svip sinn á hið nýhafna kjörtímabil. Ber þar helst að nefna sjávarútvegsmál, velferðarmál, heilbrigðismál og umhverfismál.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er að finna kafla um sjávarútvegsmál. Þar má binda mestar væntingar við ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar ef leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggðanna. Nefndar eru til sögunnar nokkrar leiðir er mögulega geta nýst til árangurs.

Mér er efst í huga að tekið verði á því vandamáli er viðkemur nýliðun í íslenskum sjávarútvegi en hvergi er minnst á málið í stjórnarsáttmálanum. Sá byggðakvóti sem hingað til hefur verið dreift milli landshluta hefur í langflestum tilvikum runnið til stærri útgerðarfyrirtækja sem fyrir löngu hafa náð fótfestu í greininni í skjóli eldri aflaheimilda. Það hlýtur að vera öllum þjóðum kappsmál að laða ungt og kraftmikið fólk í sinn stærsta atvinnuveg. Því miður hefur Ísland verið þar skelfileg undantekning.

Hvergi er minnst á fiskiðnaðinn og þann mikla vanda er steðjar að fiskvinnslufyrirtækjum er stunda rekstur án útgerðar og aflaheimilda. Þessi fjölmörgu fyrirtæki versla allt sitt hráefni á fiskmörkuðum í harðri samkeppni þar sem hráefnisverð er iðulega langtum hærra en gengur og gerist hjá öðrum aðilum sem jafnframt ráða yfir aflaheimildum og starfrækja útgerð. Engu að síður framleiða þessi fyrirtæki vörur inn á sömu markaði og getur hver um sig ímyndað sér þá ólíku samkeppnisstöðu sem er á milli fiskvinnslna án útgerðar annars vegar og hins vegar fiskvinnslna er ráða yfir aflaheimildum.

Í stjórnarsáttmálanum er ekki rætt um útflutning á óunnu hráefni, en á síðasta ári voru rösklega 30 þúsund tonn af bolfiski flutt erlendis óunnin á markað og þá sérstaklega til Þýskalands og Bretlands. Það er með ólíkindum að íslensk fiskvinnslufyrirtæki hafi ekki fengið möguleikann á að bjóða í þetta hráefni áður en það var flutt úr landi. Álíka mikið magn eða u.þ.b. 30 þúsund tonn voru boðin upp á íslenskum fiskmörkuðum allt árið í fyrra, en þó nokkru minna en fór óunnið til útflutnings á sama tíma.

Herra forseti. Það er mikilvægt að takmarka að langmestu leyti útflutning á óunnu hráefni. Jafnframt er mikilvægt að sá byggðakvóti sem nýtist til veiða fari til uppboðs á fiskmörkuðum svo ekki einungis sérvaldar fiskvinnslur í útgerð njóti góðs af heldur einnig njóti fiskvinnslur án útgerðar þess eðlilega réttar síns að fá að bjóða í hráefnið sem skilar að landi.

Hér er ekki verið að útfæra stefnu Frjálslynda flokksins heldur eru hér hugmyndir fyrir stjórnarliða sem alvarlega þarf að taka til athugunar og það strax á næstu missirum. Það er nú svo að fjölmargar fiskvinnslur eru við það að leggja upp laupana. Um er að ræða fyrirtæki sem hafa haldið uppi rekstri við glórulaus samkeppnisskilyrði í fjöldamörg ár. Nú er svo komið að aðstoðar þarf við.

Þær hugmyndir sem hér hafa verið viðraðar eru ekki róttækar, síður en svo. En þær geta bjargað fjölmörgum fyrirtækjum frá því að hætta starfsemi í að skapa ögn heilbrigðari og eðlilegri rekstrarskilyrði en um er að ræða í dag. Allir hv. alþingismenn verða að gera sér grein fyrir þeim auknu tekjum sem til landsins koma ef úr öllu þessu hráefni hefði verið framleitt hér heima með því að bjóða það fyrst upp á íslenskum fiskmörkuðum. Hv. þingheimur hlýtur að gera sér grein fyrir þeirri hollustu er slíkt mundi hafa á íslenskt atvinnu- og athafnalíf. Því er ekki hér eingöngu um að ræða nýjan og betri farveg fyrir íslenskar fiskvinnslur, heldur einnig íslensk þjónustufyrirtæki, tengd sjávarútvegi, svo sem umbúðafyrirtæki, fyrirtæki véla og tækja og svo má lengi telja.

Að kosningabaráttunni liðinni má ímynda sér að meðal stjórnarliða sé að finna þingmenn er vilja taka sjávarútvegsmálin föstum tökum. Ef til vill má treysta ungum hv. þingmönnum stjórnarliðanna til að sýna þann pólitíska kjark og metnað í starfi svo að heiðarlegar sáttaleiðir um framvindu íslensks sjávarútvegs verði að finna í náinni framtíð.

Þjóðin biður um breytingar. Lýðræðið verður að fá sín notið. Ríkisstjórnarflokkunum var sýnt gula spjaldið í nýafstöðnum alþingiskosningum.

Herra forseti. Í lokin ber að minnast á velferðarmálin, þá helst þau er snúa að fátækt á Íslandi. Fátækt á Íslandi hefur aukist til muna á seinni árum. Því miður hefur þessi vandi ekki verið viðurkenndur að öllu leyti. Það er skylda okkar allra sem kosningu hafa fengið á hv. Alþingi að leita allra leiða til að stemma stigu við þeirri óheillaþróun.

Alþýðusamband Íslands hefur nýlega kynnt heilsteyptar og vel útfærðar tillögur í velferðarmálum. Ég hvet nýja hæstv. ríkisstjórn til að huga alvarlega að þessum tillögum. Með sameiginlegu átaki og velvilja gagnvart okkar minnstu bræðrum og systrum getum við náð undraverðum árangri í þessum málaflokki. Ég vil nota tækifærið og óska öllum nýkjörnum alþingismönnum velferðar í starfi. --- Góðar stundir.