Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:41:17 (76)

2003-05-27 21:41:17# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, BJJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:41]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Nú fer í hönd þriðja kjörtímabil ríkisstjórna Framsfl. og Sjálfstfl. Mikill uppgangur hefur einkennt tímabil þessara ríkisstjórna, kaupmáttur hefur aukist samfellt sl. níu ár og hagur Íslendinga almennt batnað. Öflugt atvinnulíf er grunnforsenda þess að við getum haldið uppi öflugu velferðarkerfi og í raun mannréttindi að fólk geti stundað atvinnu við hæfi.

Mig langar í máli mínu hér í kvöld að víkja einkum að sjávarútvegs- og iðnaðarmálum sem eru náttúrlega einnig mjög mikilvæg í byggðalegu tilliti. Það er nauðsynlegt í atvinnulegu, þjóðhagslegu og byggðalegu tilliti og eitt hið mesta hagsmunamál fyrir byggðir landsins að íslenskur sjávarútvegur búi við starfsöryggi. Stjórnarandstöðuflokkarnir boðuðu allir miklar breytingar í sjávarútvegi í aðdraganda síðustu kosninga, svo miklar breytingar að stöðugleika í þjóðarbúskapnum hefði verið stefnt í hættu. Ljóst er að hefðu tillögur stjórnarandstöðunnar í sjávarútvegsmálum gengið eftir, þá hefðu mörg stór sjávarútvegsfyrirtæki lagt upp laupana með ófyrirséðum afleiðingum fyrir mörg sveitarfélög á landsbyggðinni. Hins vegar verður stjórn fiskveiða að vera í sífelldri endurskoðun. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:

,,Leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða, til dæmis með því að kanna kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila, að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar þeirra, takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins, auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrarbáta með línu. Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá`` segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga og hef verið mikill talsmaður þess að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldinu renni beint til sjávarbyggðanna, annars væri veiðigjaldið hreinn landsbyggðarskattur. Slík skattlagning væri gjörsamlega óásættanleg. Þær breytingar sem ég hef nefnt hér miða að því að ná meiri sátt um sjávarútvegsstefnuna og skapa þannig traustan grundvöll til frambúðar í sjávarútvegsmálum.

Stjórnarflokkarnir hafa verið í fararbroddi mikillar atvinnuuppbyggingar á Austurlandi sem nú er í sjónmáli með álveri Alcoa við Reyðarfjörð. Hér er um gríðarlega mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir landsmenn alla því þær framkvæmdir sem nú eru hafnar fyrir austan munu stórbæta hag íslenska þjóðarbúsins og gera okkur kleift að halda áfram að efla okkar íslenska velferðarkerfi.

Það er fleira í farvatninu. Það eru mörg spennandi verkefni á sviði atvinnumála víða um land. Við horfum til að mynda til hugmynda um polyol-verksmiðju og kísilduftverksmiðju í nágrenni við Húsavík. Hvort tveggja stórmál fyrir atvinnulíf í Þingeyjarsýslum. Og það má margt fleira til taka, svo sem stálpípuverksmiðju í Helguvík og fleira og fleira.

Við horfum einnig til mikilla samgöngubóta víða um land, t.d. göng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, sem er framkvæmd sem sameinar Fáskrúðsfjörð og Fjarðabyggð í atvinnulegu tilliti.

[21:45]

Einnig eru fyrirhuguð göng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar en tilboð í þá framkvæmd verða opnuð nk. föstudag, og ljóst að sú framkvæmd mun skipta sveitarfélög við utanverðan Eyjafjörð miklu máli.

Þannig eru, eins og ég hef verið að segja hér, miklir möguleikar fram undan í byggðamálum. Sett hefur verið á fót nýsköpunarmiðstöð á Akureyri að frumkvæði hæstv. iðn.- og viðskrh., Valgerðar Sverrisdóttur, sem mun á næstu fjórum árum úthluta einum milljarði króna til atvinnumála á landsbyggðinni. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir byggðarlögin að ungt fólk geti snúið aftur til sinna heimahaga að framhaldsmenntun lokinni. Til þess að svo geti orðið í ríkara mæli þurfum við að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu. Grundvöllurinn að því hefur verið lagður, m.a. með nýsköpunarmiðstöð á Akureyri.

Góðir tilheyrendur. Um leið og við framsóknarmenn þökkum kærlega fyrir þann stuðning sem við fengum í alþingiskosningunum þann 10. maí sl. horfum við bjartsýnum augum til framtíðar og erum staðráðin í að nýta vel þau tækifæri sem þar felast. --- Góðar stundir.