Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Þriðjudaginn 27. maí 2003, kl. 21:46:36 (77)

2003-05-27 21:46:36# 129. lþ. 3.1 fundur 64#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 129. lþ.

[21:46]

Jón Bjarnason:

Góðir Íslendingar. Við búum í góðu og gjöfulu landi. Kraftmikið atvinnulíf og öflug almannaþjónusta, byggð á félagshyggju og samhjálp, hefur á undanförnum áratugum gert okkur að einni ríkustu þjóð heims. Okkur ætti því að vera fátt að vanbúnaði að skapa hér samfélag þar sem samkennd, virðing og velferð ríkir. Í slíku samfélagi blómgast sveit og borg á eigin forsendum enda er byggðin um allt land sú menningarauðlegð sem hefur skapað vitund okkar sem þjóðar.

Þessi ágætu sannindi er þarft að hafa yfir þegar sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er lesinn því að hér ber svo fátt nýtt fyrir augu, enda hafa þessir flokkar starfað saman í átta ár og hafa ekki brugðið vana sínum í einu eða neinu á þessum árum. Stefna ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. hefur á undanförnum síðustu árum leitt til þess að eignarhald á fjármagni og aflaheimildum og öðrum samfélagseignum hefur safnast á örfárra manna hendur. Við horfum upp á breytt gildismat, fjármálaspillingu og aukinn mismun í tekjum og tækifærum meðal landsmanna.

Það þarf því ekki að koma á óvart að einkavæðing almannaþjónustu, miðstýring, þjónustugjöld og útþensla eftirlitsiðnaðarins er, eins og við mátti búast, hinir bláu þræðir sem tvinna saman stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar. Ég held að flestum hafi ofboðið framferðið við sölu og braskvæðingu ríkisbankanna sem ekki sér enn fyrir endann á. Þetta á sérstaklega við um landsbyggðina þar sem bæði starfsfólk og viðskiptavinir bíða í óvissu um hvort þeir verða slegnir af í hagræðingarskyni eða ekki. En við sölu bankanna til einkaaðila fylgdu engin skilyrði um lágmarksþjónustu við landsmenn, engar kvaðir og skyldur við starfsmenn og viðskiptavini. Fullvíst má telja að næst verði sótt að sparisjóðunum sem tókst naumlega að verja gegn braskvæðingu Framsfl. og Sjálfstfl. á síðasta ári.

Nú er ljóst að Landssíminn á að ganga sömu leið og bankarnir gengu á síðasta kjörtímabili. Hér eru að vísu gefin ákveðin fyrirheit um að tryggt verði að núverandi þjónusta við almenning á þessu sviði skerðist ekki, eins og segir í stefnuyfirlýsingunni. Það eru háleit markmið að setja sér að núverandi þjónusta skerðist ekki við sölu Landssímans. Þetta eru skýr skilaboð til íbúa hinna dreifðu byggða sem hafði verið lofað uppbyggingu og eflingu fjarskiptakerfis, breiðbandsvæðingu og háhraðagagnaflutningum. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum mega landsmenn þakka fyrir að halda þeirri þjónustu sem þeir hafa nú. Hvar eru nú fyrirvarar Framsfl. við sölu Landssímans, sem þeir stærðu sig svo mjög af á síðasta kjörtímabili?

Byggðamál eru nánast ekki nefnd á nafn í stefnuyfirlýsingunni. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar fyrir kosningar um aðgerðir til lækkunar og jöfnunar flutningskostnaðar er hvergi vikið orði að því í stefnuyfirlýsingunni. Um landbúnaðinn er sagt að hann skuli aðlaga sig aðstæðum á alþjóðlegum markaði.

Staðreyndin er sú að staða landsbyggðarinnar hefur versnað að miklum mun á þeim tíma sem stjórnarflokkarnir tveir hafa starfað saman. Á sl. tíu árum hefur þjóðinni fjölgað um rúmlega 10%. En á sama tíma verður fækkun um meira en 18% á Vestfjörðum og yfir 11% á Norðurlandi vestra. Í heild hefur íbúum landsbyggðarinnar fækkað um tólf þúsund manns á þessu tímabili.

Tekjumunur einstaklinga eykst. Árið 1993 voru meðaltekjur nokkuð jafnar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni en árið 2000 var hann orðinn 10--20% lægri á landsbyggðinni.

Gengisþróun síðustu mánuði og dollarafallið um nærri 40% ógnar rekstri og tilveru fjölda atvinnugreina, einkum í dreifbýlinu. Engar ráðstafanir eru nefndar til að leiðrétta samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna. Það er því landsbyggðin sem hefur greitt fórnarkostnaðinn fyrir það sem kallað er efnahagslegur stöðugleiki.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill standa vörð um og efla íslenskan landbúnað, ferðaþjónustu og annað atvinnulíf sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og tryggja búsetu um hinar dreifðu byggðir. Það sem landsbyggðin þarf á að halda er frumkvæði og bjartsýni og það fæst hvort tveggja með sjálfstæði og ábyrgð heimamanna. Tækifæri framtíðarinnar hvíla á mannauð, tækniþekkingu, menningararfi og náttúruauðlindum hvers héraðs til lands og sjávar. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur sterka og mótaða framtíðarsýn. Við viljum fullt sjálfstæði, nærfærna umgengni við náttúruna og auðlindir hennar ásamt þróttmikilli atvinnu- og byggðastefnu.

Virðulegi forseti. Við viljum elska, byggja og treysta á landið. --- Góðar stundir.