Úreltar búvélar

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:47:41 (3518)

2004-01-28 13:47:41# 130. lþ. 52.2 fundur 256. mál: #A úreltar búvélar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hefur umhverfisráðuneytið kannað hvernig unnt væri að aðstoða bændur við að fjarlægja úreltar búvinnuvélar og önnur landbúnaðartæki sem víða má sjá við tún og bæjarhlöð?``

Því er til að svara að ráðuneytið hefur tekið þátt í þriggja ára átaksverkefni á vegum landbrn. Fegurri sveitir, sem lauk í lok árs 2002. Þar var lögð áhersla á hreinsun í sveitum landsins. Tilgangur verkefnisins var m.a. að koma í veg fyrir mengun og bæta ásýnd dreifbýlisins og ímynd þess. Við framkvæmd verkefnisins kom fram hvar búvélar höfðu hlaðist upp í sveitum og reynt var að safna þeim saman ásamt öðru brotajárni á einn stað og tengja við ferðir fyrirtækja sem safna brotajárni, þ.e. Furu og Hringrásar.

Stjórn verkefnisins sendi út bréf til búnaðarfélaga og -sambanda með leiðbeiningum um hvernig hægt væri að aðstoða bændur við að koma frá sér gömlum búvélum. Ekki er vitað um heildarmagn úreltra búvinnuvéla og annarra landbúnaðartækja sem safnað var saman en talið er að hér hafi verið um verulega hreinsun að ræða.

Í öðru lagi er spurt: ,,Er ástæða til sérstaks hreinsunarátaks í sveitum vegna slíkra úreltra véla og tækja?``

Því er til að svara, eins og fram kom í svari við fyrstu spurningunni, að slíkt hreinsunarátak hefur einmitt nýverið staðið yfir og er nýlokið. En það leikur hins vegar ekki vafi á því að víða þarf að taka til hendinni í framtíðinni. Það er verkefni sveitarfélaga lögum samkvæmt að annast þessi mál. Þau hafa víða staðið fyrir hreinsunarátaki og hafa mörg hver árlegan hreinsunardag að vori þar sem skipulagðar eru leiðir til þess að auðvelda íbúum að losa sig við úrgang, þar á meðal brotajárn. Búvinnuvélar og landbúnaðartæki hafa sem slík ekki verið tekin upp í lög um úrvinnslugjald með þeirri undantekningu að búvinnuvélar og landbúnaðartæki sem skilgreind eru sem gjaldskyld ökutæki samkvæmt lögum um bifreiðagjald, en þar er t.d. um að ræða dráttarvélar sem ná meiri hraða en 30 km á klst. svo og rafgeymar og hjólbarðar, en markmið laga um úrvinnslugjald er að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.

Hugsanlega munu búvinnuvélar almennt og önnur landbúnaðartæki verða sett undir lögin þegar fram líða stundir. Það mun þó ekki, ef til kemur, taka á uppsöfnuðum vanda heldur koma í veg fyrir að hann aukist.