Úreltar búvélar

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:50:16 (3519)

2004-01-28 13:50:16# 130. lþ. 52.2 fundur 256. mál: #A úreltar búvélar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að taka upp þetta mál í þingsal og eins vil ég þakka fyrir svör hæstv. umhvrh. þar sem hún minntist á verkefnið sem var við lýði í nokkur ár, Fegurri sveitir, sem var á forræði hæstv. landbrh. og ég sem þáv. forseti Kvenfélagasambands Íslands átti þátt í að koma því verkefni af stað og það verkefni var mjög gott. Þar var ráðinn verkefnisstjóri sem fór um allt land og ræddi við sveitarfélögin, við bændur og það var gert mjög mikið átak.

Ég vil minna á annað átak sem var gert til þess að koma ónýtum húsum fyrir. Það var átak eftir jarðskjálftana 2000 á Suðurlandi, þá var tækifærið notað. En auðvitað þarf að koma þessum ónýtu tækjum einhvers staðar fyrir. En ég vil minna á að bara úrvinnslugjaldið sem bændur þurfa að borga núna fyrir rúlluplastið er 40--50 millj. kr. skattur á bændur.