Úreltar búvélar

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 13:51:31 (3520)

2004-01-28 13:51:31# 130. lþ. 52.2 fundur 256. mál: #A úreltar búvélar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð að heyra að hreinsunarátak hafi farið í gang 2002. Ég er hins vegar nokkuð hugsi yfir því að eftir að þessi fyrirspurn mín kom fram fékk ég bæði bréf og upphringingar frá bændum, m.a. bréf þar sem bóndi sagði mér að það þyrfti að gera meira en að reyna að losa í burtu þessi úreltu tæki. Það væri líka afskaplega ömurlegt að búa og gera vel við sitt býli en á næsta bæ væri kannski alveg hörmulegt allt útlit og allt í fári, eins og hann lýsti fyrir mér. Það þarf því kannski að gera svolítið betur en hér er sagt.

Ég skil málið þannig að það hafi verið safnað saman tækjum, reynt að hafa þau á sem fæstum stöðum og þar með er náttúrlega kominn þessi uppsafnaði vandi. Ég hef litið svo á að það sé mjög erfitt fyrir sveitarfélögin að standa ein að þessu. Í þéttbýlinu eru ákvæði um það í flestum bæjarmálasamþykktum að ef einhver fer mjög illa með lóð sína eða stendur ekki við þær reglur sem hann á að undirgangast getur bæjarfélagið látið lagfæra það sem er ábótavant á kostnað eiganda. Ég geri mér grein fyrir því að það þýðir ekkert að gera þetta á kostnað eigenda. Ég spyr: Hver mun borga fyrir að þessi tæki verði flutt af uppsöfnunarstöðum? Og ég spyr líka: Var farið í alla landsfjórðunga með þetta átak? Ég er nokkuð hugsi yfir því sem ég sá í fyrrasumar á ferð minni og vegna þeirra upphringinga sem ég hef fengið eftir að fyrirspurnin kom fram.