Megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:07:07 (3528)

2004-01-28 14:07:07# 130. lþ. 52.4 fundur 380. mál: #A megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Í haust þegar þingmenn voru almennt að búa sig undir það að þing kæmi saman mátti í fjölmiðlum lesa athyglisverðar fréttir um ferðalög hæstv. umhvrh. norður til Svíþjóðar þar sem hún átti m.a. fundi með umhverfisráðherrum hinna Norðurlandanna í Luleå og í krafti embættis síns sem samstarfsráðherra Norðurlandanna kynnti hún áherslur Íslands í norrænu samstarfi á umhverfissviðinu á næsta ári, þ.e. 2004, þegar Ísland tæki við formennsku í samstarfinu.

Ýmislegt fróðlegt mun hafa borið á góma, m.a. áhrif loftslagsbreytinga og mengunar á norðurheimskautssvæðið og gildi þjóðgarða og friðlýstra svæða á norðurslóðum. Þegar heim var komið gaf umhvrn. út fréttatilkynningu sem sagði frá því hvernig norrænu umhverfisráðherrarnir hefðu rætt þá ógn sem steðjar að vegna kvikasilfurs sem borist getur langar leiðir frá fjarlægum uppsprettum og safnast upp í lífríkinu á norðurheimskautssvæðinu og því hvernig Norðurlöndin hafa verið í fararbroddi þeirra ríkja sem þrýsta á um alþjóðlegar aðgerðir á þessu sviði. Einnig var fjallað um stuðning norrænu ríkjanna við uppbyggingarstarf á umhverfissviðinu í Eystrasaltsríkjunum og í Norðvestur-Rússlandi.

Allt vakti þetta sérstaka athygli þeirrar sem hér stendur og ber að fagna því þegar íslensk stjórnvöld beita sér á sýnilegan hátt í erlendu samstarfi á sviði umhverfismála. Á hitt ber að líta að málflutningur íslenskra stjórnvalda þarf auðvitað að vera trúverðugur, heilsteyptur og sannur hvort sem er innan lands eða utan. Á það hefur þeirri sem hér stendur oft þótt skorta, og stefnumið ríkisstjórnarinnar hafa oft og tíðum farið betur í orði en á borði.

Það er markmið og stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að dýpka umræðuna um umhverfismál og við gerum þá kröfu til stjórnvalda að framganga þeirra í þessum málaflokki sé trúverðug, sönn og öflug.

Það eru nokkuð margar vikur frá því að þessari fyrirspurn sem hér um ræðir var dreift á þingskjali og í millitíðinni hefur það gerst að stjórnvöld hafa birt stefnu sína eða formennskuáætlun í sérstökum heftum sem bera fínar yfirskriftir á borð við Auðlindir Norðurlanda og Auðlegð Norðurlanda. Þar eru greinargerðir um alla þá málaflokka sem stjórnvöld ætla að leggja áherslu á svo það er ekki vitlaust að fá að heyra í stuttu og hnitmiðuðu máli frá hæstv. umhvrh. hér hverjar megináherslurnar verði á umhverfissviðinu.

Loks verð ég að taka það fram, virðulegur forseti, að nokkurs misskilnings gætti af minni hálfu þegar þessi fyrirspurn var samin og borin upp. Hann vil ég gjarnan leiðrétta. Það er að sjálfsögðu formennskan í Norrænu ráðherranefndinni sem íslensk stjórnvöld eru að taka að sér og spurningin er því þessi: Hverjar verða megináherslur íslenskra stjórnvalda í norrænu samstarfi á umhverfissviði þegar Ísland tekur við formennsku þar?