Megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:15:22 (3530)

2004-01-28 14:15:22# 130. lþ. 52.4 fundur 380. mál: #A megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það var margt ákaflega áhugavert sem kom fram um stefnuna hjá hæstv. umhvrh. Það gladdi mig að hæstv. ráðherra tekur þátt í að halda hér ráðstefnu í júní um verndun hafsins. Ég vil þess vegna brýna sérstaklega fyrir hæstv. ráðherra að leggja mikla áherslu á að halda áfram því starfi sem Íslendingar hófu á alþjóðvettvangi, þ.e. að berjast gegn losun lífrænna þrávirkra efna. Við vitum að norðurhöf eru eins konar kuldagildra sem safnar að sér slíkum efnum.

Nú eru tilefnin ærnari en áður. Borist hafa fregnir af því að lax sem alinn er á norðurslóðum og fóðraður á hráefni sem kemur úr uppsjávarfiskum sem eru í norðurhöfum hefur töluvert meira af slíkum efnum í sér en lax annars staðar. Við höfum alltaf varað við því að það þurfi að berjast gegn mengun af þessu tagi og mér finnst, virðulegi forseti, eins og áhersla Íslendinga á þetta mál hafi heldur dvínað á síðustu árum.