Megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:20:29 (3533)

2004-01-28 14:20:29# 130. lþ. 52.4 fundur 380. mál: #A megináherslur íslenskra stjórnvalda í Barentsráðinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þessi síðustu orð um að mikilvægt sé að fjölmiðlar fylgist með því sem við erum að gera á erlendum vettvangi í umhverfismálum. Mjög óskandi væri að það væri gert meira af því þar sem við erum að gera mjög öfluga hluti þar að mínu mati.

Ég vil aðeins fá að koma inn á það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði um eftirfylgni okkar í málefnum hafsins sem lúta að þrávirkum lífrænum efnum. Það var sagt hér að áhuginn hefði eitthvað dvínað. Það er alls ekki svo. Það er mikill misskilningur. Það hefur verið mikill áhugi á þessum málum. Við höfum sett málefni hafsins í forgang í erlendum samskiptum okkar. Þar hafa málefni hafsins og loftslagsbreytingar verið efst á baugi. Við tókum þátt í þessu frá upphafi, eins og hv. þm. þekkir mjög vel. Það var Ísland sem kom því fyrst í texta á alþjóðavettvangi að gera ætti alþjóðasamning gegn þrávirkum lífrænum efnum. Það var engin önnur þjóð sem gerði það fyrst. Það vorum við sem vorum fyrst. Nú er sem sagt kominn alþjóðasamningur á, kenndur við Stokkhólm, og við vinnum auðvitað áfram að þessum málum. Áhuginn hefur sko alls ekkert dvínað.

Einn okkar besti samningamaður, einn besti samningamaður landsins, fullyrði ég, Halldór Þorgeirsson í umhvrn., er núna formaður í nefnd á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem mun leiða starf varðandi hvernig á að taka á manngerðum efnum eða svokölluðum ,,chemicals``. Við erum því aldeilis ekki að missa áhugann á þessum málum.

Við höfum líka verið að vinna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að því að koma upp úttektum á stöðu umhverfismála hafsins, mengun hafsins, og það er verið að vinna að því á fullu. Ráðuneytisstjórinn er nýkominn heim úr slíkri ferð til Bandaríkjanna til að ýta á eftir því máli. Áhugi okkar er svo sannarlega til staðar.

Það er ekki heldur rétt sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni að við hefðum ekki haft neitt frumkvæði í loftslagsmálum. Ég vil benda á vetni og það sem hefur farið fram á þeim vettvangi. Íslendingar vildu ganga lengra en aðrar þjóðir í Jóhannesarborg varðandi endurnýjaða orku. Ég bara vísa í það sem við gerðum þar.