Friðun rjúpu

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:32:37 (3538)

2004-01-28 14:32:37# 130. lþ. 52.5 fundur 392. mál: #A friðun rjúpu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið og hvetja enn og aftur til rannsókna á rjúpnastofninum. Það er ómögulegt að byggja ákvarðanir á einhverju tilfinningalegu mati á því hvert ástand rjúpnastofnsins er. Við sjáum að röksemdafærsla sjálfrar Náttúrufræðistofnunar er mjög veik í þessu máli. Í fyrsta lagi telja þeir að með sölubanni dragi úr veiðiálagi stofnsins um 50--70%. Gott og vel, það má vera. Ég ætla ekki að rengja þá í því. En þá segja þeir að það samsvari því að veiðitímabilið sé stytt í um það bil heila viku. Ég ætla ekki að rengja þá um það. Þetta gæti verið rétt mat hjá þeim, ég ætla ekki að rengja þá um það. En hver er síðan niðurstaðan? Það er ekki einhver millivegur eða tillaga um að sjá til. Lagt er til fimm ára veiðibann. Það sjá allir að ekkert samræmi er í þessari röksemdafærslu og bannið er síðan stytt í þrjú ár.

Ég hvet enn og aftur til rannsókna á rjúpnastofninum þannig að menn séu ekki að efna til deilna í þjóðfélaginu um nytjar á þessum fugli. Í stað þess ættu menn að koma með haldbærar röksemdir.