Skattar á vistvæn ökutæki

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:50:39 (3546)

2004-01-28 14:50:39# 130. lþ. 52.6 fundur 398. mál: #A skattar á vistvæn ökutæki# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Eins og ég reyndi að koma á framfæri í svari mínu áðan þá hafa verið tekin ákveðin mjög vel skilgreind skref. Það er búið að undanþiggja vörugjaldi ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa svo sem rafhreyfli eða vetni og ökutæki sem nota innlenda orkugjafa greiða 50% lægri þungaskatt og hluti virðisaukaskatts vegna umhverfisvænna hópbifreiða sem uppfylla tiltekin skilyrði hefur verið endurgreiddur. Það er því búið að stíga mjög góð skref að þessu leyti. En það er rétt að gera þarf meira og ætlunin er að gera meira.

Hér var sagt að þessi mál væru að malla í samráðsnefnd. Ég vil nú ekki orða það svo. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt nefndarstarf sem á sér stað um orkumál í samgöngum undir forustu iðnrn. Hins vegar þurfa menn að viðhafa ákveðið samráð þegar gera á miklar breytingar.

Þess er auðvelt að minnast að hér hefur verið rætt um olíugjald. Það fór inn í þingið á sínum tíma, dagaði uppi. Ég tel að það gæti verið mjög gott skref að fara í olíugjaldsbreytingar og það er eiginlega má segja forsendan fyrir því að við náum þessum markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér um sjálfbæra þróun að fjölga hér dísilbílum.

Ég tel því að við séum að gera góða hluti. Við höfum farið í gegnum stefnumörkun. Ríkið hefur sett stefnu. Mig langar líka að nefna hér að borgin hefur verið með framsýna stefnumótun á þessu sviði. Og af því að hér er hæstv. samgrh. þá hefur samgrn. markað mjög metnaðarfulla stefnu varðandi umhverfismál í samgöngugeiranum. Ég held því að við séum á réttri leið. En að sjálfsögðu er þetta verkefni ekki búið og munum við taka mörg fleiri skref í framtíðinni.