Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 14:53:11 (3547)

2004-01-28 14:53:11# 130. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. umhvrh. hvað líði áformum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í ljósi þess að fengin er niðurstaða um þjóðlendur á svæðinu og í öðru lagi um hvort rekstur Jöklasetursins á Hornafirði sem einnar af miðstöðvum þjóðgarðsins sé til skoðunar í því samhengi.

Fyrirhuguð stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er mjög mikilvæg aðgerð í mörgu tilliti og eitt mikilvægasta mál byggðanna á Suðausturlandi og reyndar atvinnulega fyrir öll sveitarfélögin sjö sem eiga land að jöklinum, enda hefur þjóðgarðurinn í för með sér mörg stór tækifæri í ferðaþjónustu auk fjölda fastra starfa við vörslu og viðgang Vatnajökulsþjóðgarðs. Ferðaþjónustan kemur til með að eflast mjög og hafa margir leitt líkur að því að með tímanum mundi öflug starfsemi í kringum þjóðgarðinn verða til íbúafjölgunar og fjölbreyttara mannlífs og atvinnulífs á svæðunum sem honum tengjast. Þá munu íbúar í dreifbýlinu fá mörg verkefni við það að bæta aðgengi að náttúruperlunni Vatnajökli. Tenging jöklaseturs við háskólasetur í Nýheimum á Hornafirði mundi einnig opna ótal möguleika fyrir öflugt rannsóknar- og háskólastarf ýmiss konar á svæðinu og þá ekki síst í tengslum við þær frumherjabúðir sem tekið hafa til starfa í Nýheimunum þar sem byggð hefur verið upp fyrsta flokks aðstaða fyrir fræðimenn til að stunda störf sín.

Virðulegi forseti. Til þess að ná sem mestu út úr stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir byggðir og mannlíf á Suðausturlandi er brýnt að tengja stofnun þjóðgarðsins vel við Jöklasetrið og Jöklasafnið á Hornafirði með það að markmiði að gera Jöklasetrið að einni af meginmiðstöðvum hins nýja Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í Jöklasetrinu yrði t.d. veitt fræðsla og upplýsingagjöf og boðið upp á afþreyingu í máli og myndum eins og jöklasýningin undanfarin ár gerir nú. Með þessu yrði tryggður fastur opinber rekstrarstyrkur til Jöklasetursins sem er algjör forsenda þess að verkefnið nái að eflast og dafna og ná frekari fótfestu. Í framhaldi af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og jöklaseturs ætti síðan að setja markmiðið á að koma á fót Jöklamiðstöð Íslands sem verði miðstöð jökulrannsókna á Íslandi í framtíðinni, enda verði lagður góður grunnur að slíkri miðstöð með þjóðgarði og jöklasetri. En einnig og ekki síður er um stórbrotið skref í náttúruvernd þessa einstaka svæðis að ræða og þar sem fyrir liggur úrskurður óbyggðanefndar um þjóðlendulínur í Austur-Skaftafellssýslu er óvissu þar að lútandi eytt. Því er brýnt að hraða stofnun þjóðgarðsins sem allra mest enda eru væntingar fólks þar eystra miklar í því sambandi.

Því spyr ég hæstv. umhvrh. eftirfarandi spurninga:

,,Hvað líður áformum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í ljósi þess að fengin er niðurstaða um þjóðlendur á svæðinu? Er rekstur Jöklasetursins á Hornafirði sem miðstöðvar þjóðgarðsins til skoðunar í því samhengi?``