Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:01:21 (3549)

2004-01-28 15:01:21# 130. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HBl
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál er á dagskrá. Eins og hæstv. umhvrh. er kunnugt hef ég mjög mikinn metnað fyrir hönd Náttúrurannsóknastöðvarinnar í Mývatnssveit sem er sjálfstæð rannsóknastofnun. Nú eru 30 ár síðan hún var sett á laggirnar og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki sé kominn tími til þess að fylgja eftir þeim hugmyndum sem stóðu að baki stofnun þessarar rannsóknastöðvar. Það er að sjálfsögðu algerlega út í hött að hugsa sér að það sé nægilegt að vera með einhverjar þjónustumiðstöðvar hringinn í kringum jökulinn eins og kerti sem öllum sé fjarstýrt frá Reykjavík. Það sem við Norðlendingar erum að hugsa um er að þessi náttúrurannsóknastöð taki að sér rannsóknir á svæðinu norðan Vatnajökuls og skriðjöklunum sömuleiðis sem næra Jökulsá á Fjöllum. Þegar talað er um þjóðgarð norður þar hlýtur maður að leggja fram þá kröfu að þeim þjóðgarði sé stjórnað af heimamönnum.