Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:04:58 (3552)

2004-01-28 15:04:58# 130. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Skaftafell er einhver glæsilegasti og skemmtilegasti þjóðgarður sem ég hef komið í. Það er jafnframt á döfinni að gera þjóðgarð úr jökulhettunni sjálfri. En eins og þingheimur veit er starfandi nefnd um friðlýsingu og stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Ég tel að það eigi að steypa öllum þessum þremur svæðum í einn stóran þjóðgarð sem væri einsdæmi á heimsmælikvarða. Ég tel að þá yrði engin togstreita milli þeirra sem búa á mismunandi stöðum umhverfis jökulinn. Þá væri ein yfirstjórn yfir þjóðgarðinum þar sem öll sveitarfélögin kæmu að en jafnframt væru stöðvar eins og sú sem hv. þm. Halldór Blöndal reifaði áðan og það væri sömuleiðis þjóðgarðsvörður á Höfn í Hornafirði svo að hægt væri að stýra mismunandi svæðum úr mismunandi fjórðungum sem að þessum mikla þjóðgarði mundu liggja. Ég tel því enga ástæðu til þess að ætla að það verði einhver togstreita, þá væri hægt að sætta þetta allt saman.