Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:08:58 (3555)

2004-01-28 15:08:58# 130. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um Vatnajökulsþjóðgarð og tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að hér geti orðið einn af glæsilegri þjóðgörðum veraldar. Menn hafa nálgast umræðuna dálítið út frá þjóðgarðinum sem rannsóknarfyrirbrigði en það er líka rétt að vekja athygli á því að þjóðgarðinum viljum við koma upp til þess að vernda svæði til þess að hægt sé að stunda þar rannsóknir en ekki síst til þess að fólk geti notið þeirrar náttúrufegurðar sem þar er.

Hins vegar er umræða um það hvernig og hvaðan eigi að stjórna þjónustu, hvort heldur er rannsóknum eða vegna ferðamanna, hvort sú stjórnun fer fram fyrir sunnan, fyrir norðan, sunnan jökla, norðan jökla eða suður í Reykjavík í rauninni ekki meginatriðið. Aðalatriðið er að verkefnið er að verða að raunveruleika og heimamenn eru að sjálfsögðu langsamlega best til þess fallnir hvort sem þeir búa norðan eða sunnan jökla og ég efast ekki um að þar muni takast gott samstarf og staðsetning einstakra þjónustustöðva á að vera endanlega í höndum heimamanna.