Skaðleg efni og efnavara

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:22:48 (3560)

2004-01-28 15:22:48# 130. lþ. 52.8 fundur 423. mál: #A skaðleg efni og efnavara# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Það er kannski illa gert að setja fram fyrirspurn sem krefst viðamikils og flókins svars í þessu formi þar sem veitt eru munnleg svör þannig að ég vil biðjast afsökunar á því að hafa gert hæstv. ráðherra erfitt fyrir með að koma öllu svari sínu að á þessum stutta tíma. En það er alveg greinilegt að íslensk stjórnvöld verða að fylgjast gaumgæfilega með því sem er að gerast í Evrópu og að reyna það sem þau geta eftir fremsta megni að hafa áhrif á það að löggjöfin sem verið er að koma á þar verði ekki útvötnuð af framleiðendum eins og ég gat um í upphafi máls míns.

Það er líka verulega mikilvægt að íslensk stjórnvöld standi vörð um og auki og efli þá fræðslu sem mögulegt er að hafa hér á landi hvað varðar notkun þessara efna því hér er um að ræða efni sem fólk innbyrðir eða nýtir. Þessi efni eru í almennri notkun og við vitum að efni eru flókin vara. Nöfnin á þeim eru flókin. Það er erfitt fyrir neytendur að læra að meta og leggja á minnið hver þeirra eru talin vera krabbameinsvaldandi og hver ekki. Og við vitum það öll sjálf að þó svo við höfum heyrt eitt eða annað í þessum efnum stöldrum við kannski sjaldnast við þegar við erum stödd í verslun til að spyrja okkur sjálf hvort viðkomandi vara innihaldi einhver efni sem einhvern tímann hefur verið varað við að gætu verið heilsuspillandi. Ég tel því ábyrgð íslenskra stjórnvalda í þessum efnum vera afskaplega mikla og hvet íslensk stjórnvöld til þess að hafa vakandi auga með því sem er að gerast á þessum vettvangi í Evrópu og að taka til hendinni og efla hér alla fræðslu og sjá til þess að neytendur séu upplýstir og neytendasamtök geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað.