Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:31:11 (3562)

2004-01-28 15:31:11# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Nú er það komið á daginn sem margan grunaði. Engin gereyðingarvopn er að finna í Írak. Hver sérfræðingurinn af öðrum staðfestir nú að þrátt fyrir saumnálarleit í heila níu mánuði finnist engin merki þess að stjórn Saddams Husseins hafi haft undir höndum gereyðingarvopn né heldur að framleiðsla slíkra vopna væri gerleg eða í undirbúningi í landinu. Síðast viðurkenndi sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Colin Powell, að þetta væri veruleiki hlutanna.

Þetta eru auðvitað stórtíðindi sem óhjákvæmilegt er að taka til umræðu á hinu háa Alþingi, ekki síst vegna þess að meintur ótti við gereyðingarvopnaframleiðslu Íraka var meginforsenda og langstærsta ástæða þess að sú umdeilda ákvörðun var tekin að fara inn í Írak þann 20. mars á síðasta ári. Nú virðist óumdeilt að sú ástæða heldur ekki og var ekki á rökum reist.

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með ráðamönnum, ekki síst hér á landi, sem hafa hangið á hálmstráum í þessum efnum og fram undir það síðasta forðast að horfast í augu við veruleikann. Þannig hefur hæstv. utanrrh. fullyrt í viðtali eftir viðtal að hann væri sannfærður um að þessi vopn væri þarna að finna, það væri eingöngu spurning um hvenær en ekki hvort. Hæstv. ráðherrann taldi sig á dögunum hafa komist í feitt þegar fréttir birtust þess efnis að danskir og íslenskir eftirlits- og leitarmenn hefðu fundið vopn sem innihéldu dularfullan vökva. Heimssögulegur atburður, sagði ráðherra þá. Fljótlega kom þó í ljós að þessi vopnafundur stóð hreint ekki undir því nafni.

Það var loks í fjölmiðlum í fyrrakvöld að greina mátti veikburða tilraunir utanrrh. til að viðurkenna staðreyndir. Þar sagði hann loks í viðtali við Stöð 2 að svo virtist sem stórveldin hefðu gert of mikið úr gereyðingarvopnum Íraka. Þegar hann var í framhaldinu spurður hvort hann hefði stutt árásina hefði hann vitað af því að engin slík vopn væri að finna þá svaraði ráðherrann: Ég skal ekkert um það segja.

Fyrir innrásina var hæstv. utanrrh. þó öllu skýrmæltari. Í umræðum á hinu háa Alþingi þann 27. janúar á síðasta ári sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það hlýtur að vera krafa okkar Íslendinga eins og annarra að þeir afvopnist. Það er krafa Sameinuðu þjóðanna.

Hins vegar ef í ljós kemur að hann býr ekki yfir gjöreyðingarvopnum, þá er málið væntanlega leyst.``

Svo mörg voru þau orð. Ef Saddam býr ekki yfir gjöreyðingarvopnum þá er málið væntanlega leyst, sagði ráðherrann. Það liggur því alveg kristaltært fyrir að meint tilvist gereyðingarvopna var það atriði sem öllu skipti. Innrásin virðist því hafa verið byggð á misskilningi samkvæmt skilgreiningu ráðherrans sjálfs frá þeim tíma.

Því er það seinni tíma afsökun hjá íslenskum ráðamönnum þegar þeir segja að innrás í Írak hafi verið réttlætanleg eingöngu til þess að koma harðstjóranum Saddam Hussein frá völdum. Það var aldrei meginatriði málsins enda hafði þessi harðstjóri setið áratugum saman. Að auki benti ýmislegt til þess að dagar hans sem einræðisherra hefðu senn verið taldir án innrásar. Það hefur nefnilega komið á daginn að stjórnkerfi hans var allt í molum, her hans illa vopnum búinn, baráttuvilji lítill og trúnaður við harðstjórann hverfandi. Undirstrikun þessa var þegar hann var í bókstaflegri merkingu dreginn upp úr holu, þrotinn kröftum.

Vissulega var nauðsynlegt að koma þessum illvirkja undir manna hendur. En voru ekki aðrar leiðir en vopnuð innrás skynsamlegri, eins og Sameinuðu þjóðirnar lögðu mikla áherslu á? Ef innrás í annað ríki er réttlætt með því að koma frá harðstjórum sem kúga fólk sitt og myrða þýðir það ekki að óhjákvæmilegt er að leggja drög að frekari aðgerðum í þessa veru? Er það ætlun lýðræðisríkja að halda áfram á sömu braut, fara inn í Norður-Kóreu eða ýmis ríki Asíu og Afríku? Hvað með Íran, sem hæstv. ráðherra er nú nýkominn úr heimsókn frá, þar sem menn hafa óttast að framleidd séu gereyðingarvopn og mannréttindi eru sannarlega fótum troðin? Hvernig ætla menn að halda þessari línu óbreyttri?

Afleiðingar innrásarinnar í Írak eru okkur öllum kunnar og þær eru skelfilegar, ástand mála er þar í miklum ólestri, mannfall hermanna, mannfall óbreyttra borgara og mannfall í hjálparsveitum er mikið. Enginn er óhultur.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar skáka gjarnan í því skjóli að þegar réttmæt gagnrýni kemur fram á algera fylgispekt þeirra við Bush-stjórnina þá séum við jafnaðarmenn og aðrir gagnrýnendur óvinir Bandaríkjanna. Þetta er fjarri lagi. Ég ber mikla virðingu fyrir Bandaríkjunum og vil viðhalda áralangri vináttu þessara ríkja. Það breytir því ekki að réttmæt og hörð gagnrýni á Bush-stjórnina á fullan rétt á sér. Það sem meira er, meiri hluti almennings deilir þeim skoðunum með mér. Það skyldi þó aldrei fara svo að á þessu yrðu breytingar síðar á þessu ári, í nóvember þegar Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta sem hefði þá hugsanlega allt aðrar áherslur í alþjóðamálum, í Íraksmálum. Hvað gera ráðamenn á Íslandi þá? Taka þeir U-beygju með nýjum stjórnvöldum þar vestra?

Herra forseti. Klukkunni verður auðvitað ekki snúið aftur. Það er gert sem gert hefur verið. Nú gildir hins vegar að reyna að vinna sem best úr ástandinu og kalla sem flesta að verki. Uppbyggingarstarfið verður að halda áfram með samstarfi við alþjóðasamfélagið og heimamenn. Hins vegar er mikilvægt, frú forseti, að í stjórnmálum horfist menn í augu við gjörðir sínar og taki dómi sögunnar. Sú stund er nú runnin upp hér á hinu háa Alþingi.

Því spyr ég hæstv. utanrrh.: Er hann nú loks reiðubúinn til að viðurkenna hið óumflýjanlega, að fylgispekt íslensku ríkisstjórnarinnar við Bush-stjórnina, við innrásina í Írak fyrr á þessu ári, hafi verið mistök?