Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:44:58 (3565)

2004-01-28 15:44:58# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Enn og aftur er umræða um Írak í þingsölum. Hverjar eru staðreyndir þess máls?

Saddam Hussein braut þá skilmála sem hann gekkst undir eftir fyrra Persaflóastríðið. Saddam Hussein braut samþykktir hinna Sameinuðu þjóða ítrekað. Saddam Hussein kúgaði og myrti írakska þjóð. Forsendurnar voru sambærilegar og voru til staðar í Bosníustríðinu, sem Samfylkingin studdi, nema hvað að Saddam braut mun fleiri samþykktir og var mun blóðþyrstari en Mílosevic var nokkurn tíma.

Afleiðingar stríðsins eru í stórum dráttum þessar: Harðstjórn Saddams Husseins hefur verið komið frá og nú er verið að vinna að lýðræðislegum kosningum í landinu. Það er vægast sagt fátítt í þessum heimshluta að slíkt stjórnarfar sé til staðar. Ríki eins og Líbía og Íran eru nú að bjóðast til að gefa eftir gjöreyðingarvopnauppbyggingu sína og eru það góðar fréttir fyrir heimsbyggðina. Stríð eru hörmuleg og því verður ekki haldið fram að öðruvísi hafi verið með þetta stríð. Mikil vinna er fram undan við að byggja Írak upp, það sama á t.d. við um Kosovo og önnur svæði þar sem átök hafa geisað.

Virðulegi forseti. Heimspressan bíður ekki í ofvæni eftir niðurstöðu þeirrar umræðu sem hér fer fram í þingsölum. En það er nokkuð sem er athyglisvert í pólitísku samhengi hér á landi. Á undanförnum áratugum hafa þrír af fjórum flokkum á Íslandi stutt ábyrga stefnu í öryggis- og varnarmálum. Það hefur breyst. Nú hafa báðir vinstri flokkarnir á Íslandi tekið upp áherslur gamla Alþýðubandalagsins í þessum málaflokki. Það endurspeglast m.a. í því að Samf. tefldi í fullri alvöru fram forsætisráðherraefni fyrir síðustu kosningar sem hafði það stefnumál að taka Ísland af lista hinna staðföstu þjóða. Það er án nokkurs vafa eitt vitlausasta stefnumál í sögu íslenskra stjórnmála.

Það er kaldhæðnislegt að fylgjast með Samf. ráðast af alefli á Tony Blair í ljósi þess að það fólk hélt sérstakt samkvæmi á krá á Seltjarnarnesi til að fagna því að sá breski stjórnmálamaður hefði náð kjöri. Er það einsdæmi að stjórnmálaflokkar haldi formlegt boð til að fagna árangri stjórnmálamanna í öðrum löndum.

Flokksmenn Samf. hafa hvað eftir annað lýst því yfir að þá langi til að verða eins og Tony Blair, nútímalegir jafnaðarmenn eins og það er kallað.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er sú að þingmenn Samf. eru gamaldags alþýðubandalagsmenn.