Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:57:00 (3570)

2004-01-28 15:57:00# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Í 23 ár réði völdum í Írak einhver mesti harðstjóri sögunnar, einræðisherra sem var þekktur fyrir miskunnarleysi sitt og grimmd, bæði gagnvart eigin þjóð og öðrum.

Í kjölfar Flóabardaga voru Írökum settir vopnahlésskilmálar árið 1991 og samkvæmt þeim skyldu þeir afvopnast, sú var krafa alþjóðasamfélagsins. Eftir áralöng átök við Íraka samþykkti öryggisráðið í nóvember árið 2002 ályktun nr. 1441. Þessi ályktun var lokaviðvörun til Íraka um að afvopnast. En sem fyrr létu Írakar sér ekki segjast þrátt fyrir að fyrir lægi að það varðaði valdbeitingu að fara gegn þessari lokaviðvörun. (Gripið fram í: Hvar eru vopnin?)

Nú deila menn um það hvort rétt hafi verið lesið úr þeim upplýsingum sem safnað hafði verið um hernaðarlega stöðu Íraks. Því er haldið fram að fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið tilefni til að óttast um tilvist efna- og gereyðingarvopna í landinu. Í þeirri umræðu má ekki gleymast að árin 1992, 1995, 1996 og 1997 hafði Saddam Hussein gefið yfirlýsingar um að hann ætti ekki efnavopn. Engu að síður voru þær yfirlýsingar hraktar í hvert skipti fyrir sig. Síðast árið 1997 fundu eftirlitsmenn útbúnað til að framleiða taugagas. Írakar höfðu átt og þeir höfðu beitt efnavopnum. Talið er að Saddam Hussein og ógnarstjórn hans hafi drepið 35 þús. manns með þessum hætti.

Það sem stendur upp úr í þessu máli er að Írak hafði alls ekki sýnt fram á að landið hefði afvopnast og það er ódýrt fyrir menn að koma hér upp nú, þegar ógnarstjórninni hefur verið hrundið, og segja: Að öllum líkindum höfðu þeir eytt öllum sínum vopnum. Það lá alls ekki fyrir þegar innrásin var framkvæmd og það gagnast ekki mönnum heldur að koma hér upp og segja að Saddam Hussein hefði að öllum líkindum farið frá völdum í ljósi þeirra upplýsinga sem við nú höfum. (Gripið fram í: Hvar eru þá vopnin?)