Staðan í Írak

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 16:08:02 (3575)

2004-01-28 16:08:02# 130. lþ. 52.99 fundur 262#B staðan í Írak# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Sem betur fer stóðum við Íslendingar ekki í þeim sporum að þurfa að senda hermenn í þessar aðgerðir. En það var hlutskipti forsætisráðherra Bretlands, Tonys Blairs, að taka slíka ákvörðun. Trúa þingmenn Samf. því að það hafi verið þeim manni sem er kjörinn með lýðræðislegum hætti og er mjög merkur stjórnmálamaður mjög auðveld ákvörðun og hann hafi gert það af einhverri léttúð? (Gripið fram í: Þú ert ekki Blair.) Og hann hafi ... Ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki Blair. En það var hann sem stóð í þeim sporum, en í þeim sporum stóð íslenska ríkisstjórnin ekki. Það er út í hött þegar þingmenn Samf. tala hér eins og Íslendingar hafi staðið í þeim sporum og tekið þvílíkar ákvarðanir. Mér dettur ekki í hug að forsætisráðherra Bretlands hafi gert það af einhverri léttúð og hafi gert það til þess að vera í einhverjum þykjustuleik. Hann gerði það að sjálfsögðu vegna þess að hann trúði því, eins og við í ríkisstjórn Íslands, að heimsfriði og heimsbyggðinni stæði ógn af þessum manni, á grundvelli ályktana SÞ. Það var það sem hann trúði og trúir því enn. (Gripið fram í.) Beiðni Bandaríkjamanna og Breta ... Þú skalt tala á Stöð 2 á morgnana, það er nóg fyrir þig. (Gripið fram í.) Það væri gott ef frú forseti mundi einhvern tímann biðja þessa menn sem veita aldrei frið fyrir ræðumenn við svipaðar aðstæður að taka tillit til þeirra. Það eru ákveðnir menn hér í þingsalnum sem fara þar fremstir. Og vil ég fá framlengingu á mínum tíma út á brot þessara aðila á þingsköpum. (MÁ: Er hann að tala um ...?)

(Forseti (JóhS): Ég bið um þögn í salnum, leyfa hæstv. utanrrh. að ljúka máli sínu.)

Ég þakka, virðulegi forseti, fyrir það að fá að ljúka máli mínu.

En þetta eru staðreyndir málsins. Við Íslendingar vorum beðnir um stuðning í þessu sambandi af helstu bandamönnum okkar á sviði öryggismála. Samf. vildi segja nei. Engan slíkan stuðning. Engan móralskan stuðning. Ríkisstjórn Íslands sagði: Já, við veitum slíkan móralskan stuðning á grundvelli ályktana SÞ.

Þá liggur það fyrir. Þið vilduð ekki gera það. Við vildum gera það. (GÁS: Ekki Samf.) Ég taldi það rétt þá og ég tel það rétt enn.

(Forseti (JóhS): Ég vil líka minna hæstv. utanrrh. á að hann á að ávarpa forseta en ekki einstaka þingmenn.)