Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:01:24 (3576)

2004-01-28 18:01:24# 130. lþ. 52.9 fundur 426. mál: #A þjóðgarðar og friðlýst svæði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Á grundvelli laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, eru starfræktir þrír þjóðgarðar hér á landi auk þjóðgarðsins á Þingvöllum sem starfar samkvæmt sérstökum lögum og heyrir undir forsrn. Þjóðgarðarnir þrír eru þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, þjóðgarðurinn í Skaftafelli og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum. Auk þess hafa verið skilgreind og friðlýst fjölmörg friðlönd, náttúruvætti, fólkvangar og svæði skilgreind vegna húsa eða verndar. Einnig er til friðun með sérlögum og á það við t.d. um Mývatns- og Laxársvæðið og Breiðafjörð.

Fyrri spurning mín til hæstv. umhvrh. snýr að því hvernig núverandi stjórnkerfi þjóðgarða og friðlýstra svæða er háttað nú.

Seinni spurning mín til hæstv. umhvrh. er svohljóðandi: Eru á döfinni breytingar á stjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða?

Hæstv. forseti. Unnið hefur verið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á vegum Umhverfisstofnunar og nefnd á vegum umhvrn. vinnur að tillögum að stofnun þjóðgarðs fyrir norðan Vatnajökul. Í ljósi þess að nú er enn gert ráð fyrir fleiri þjóðgörðum og aukinni starfsemi á sviði náttúruverndar og þjóðgarða, hljóta að vakna spurningar um stjórnun á þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

Í fyrsta lagi er spurning hvort huga ætti að nýrri stofnun sem staðsett yrði á landsbyggðinni og hefði með málefni þjóðgarða og verndarsvæða að gera. Í öðru lagi mætti huga að einkavæðingu á rekstri þjóðgarða. Og í þriðja lagi hlýtur að vera ástæða til að huga að því með hvaða hætti sveitarstjórnir og aðrir heimamenn komi að stjórnun, rekstri og stefnumótun um málefni þjóðgarða.

Roger Crofts er fyrrverandi framkvæmdastjóri náttúruverndarstofnunar Skotlands og situr nú í stjórn alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna. Hann hefur reyndar einnig starfað hér á landi um langt árabil sem ráðgjafi um landgræðslu og náttúruvernd. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í desember benti hann á að í stjórn þjóðgarðs sem tengist Vatnajökli ætti að velja á lýðræðislegan hátt fulltrúa sem endurspegla helstu hagsmuni sem í húfi eru, bæði hagsmuni sveitarfélaga og þjóðarinnar allrar. Hann hefur bent á að í Skotlandi koma heimamenn að yfirstjórn þjóðgarða en síðan er stjórn í hverjum garði fyrir sig. Þar eru heimamenn m.a. valdir með beinni kosningu.

Ég tel afar mikilvægt með tilliti til náttúruverndargildis þjóðgarða, auk hagsmuna ferðaþjónustunnar í landinu, að til komi staðarþekking þeirra er búa í og við þjóðgarða. Staðbundin þekking bænda og menningarminjar skapa ýmsa möguleika í ferðaþjónustu eins og dæmin sanna. Án þess að kasta rýrð á þá sem nú starfa við þjóðgarða held ég að það sé óumdeilt að þekking og tilfinning fyrir ábyrgð þeirra sem næst búa hlýtur að vera dýrmæt fyrir starfsemi þjóðgarða.