Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:09:48 (3578)

2004-01-28 18:09:48# 130. lþ. 52.9 fundur 426. mál: #A þjóðgarðar og friðlýst svæði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:09]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Áfram ræðum við um þjóðgarða og mikilvægi þeirra fyrir atvinnulíf, mannlíf, náttúruvernd og hvers konar uppbyggingu einstakra svæða á landinu. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda, Arnbjörgu Sveinsdóttur, og hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að tryggja aukna ábyrgð íbúa einstakra sveitarfélaga sem að viðkomandi þjóðgörðum liggja bæði að rekstri og uppbyggingu og stjórn þjóðgarðanna. Það er náttúrlega best gert í gegnum réttkjörna fulltrúa íbúa sveitarfélaganna sem eru sveitarstjórnarmenn. Hvet ég hæstv. ráðherra til að hraða allri vinnu við slíka lagasetningu sem mundi tryggja það, sérstaklega í því ljósi að við blasir stofnun á nýjum stórum og mikilvægum þjóðgarði sem er Vatnajökulsþjóðgarður, til að tryggja aðkomu heimamanna að stjórn hans og til að ná sem mestri sátt um uppbyggingu, þjónustu og rannsóknarmiðstöð í kringum hann.