Öryggi vegfarenda á Kleifaheiði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:32:30 (3588)

2004-01-28 18:32:30# 130. lþ. 52.11 fundur 414. mál: #A öryggi vegfarenda á Kleifaheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Öryggi vegfarenda á þjóðvegum er vissulega að aukast. Það eykst í hvert sinn sem slysastaðir eru lagfærðir með fækkun einbreiðra brúa eða nýjum vegaköflum þar sem áður voru blindhæðir eða hættulegar beygjur. Að þessum lagfæringum er unnið samkvæmt áætlun á hverjum tíma svo sem fjárveitingar leyfa. En af nógu er að taka í fækkun áhættu- og slysastaða.

Fyrirspurnin sem ég ber fram snýr hins vegar sérstaklega að öryggi vegfarenda á nýlegum vegi yfir Kleifaheiði. Það hefur vakið athygli og er til fyrirmyndar að vegrið eru sett strax í verklok, t.d. á Vatnaheiði og Bröttubrekku, svo tvö dæmi séu nefnd, Brattabrekkan er nú reyndar ekkert brött lengur, þar sem gengið var frá vegriðum við verklok og vegrið sett á um leið og verkið var klárað. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að á Vestfjörðum virðist mér að málum sé hagað talsvert öðruvísi. Þar hafa ágætar vegaframkvæmdir verið kláraðar eins og t.d. á Kleifaheiði. Þar er auðvitað stefnt að því að minnka veghalla á ákveðnum köflum með því að dreifa hallanum og létta þannig umferð yfir vegina. Þetta er mjög gott og við auðvitað mjög ánægðir með það sem gert hefur verið.

En það sem hefur vakið athygli Vestfirðinga og m.a. þess sem hér stendur, er að það er ekki sami frágangsmáti á vegaframkvæmdum inni í fjórðungnum miðað við þau tvö dæmi sem ég var að nefna, annars vegar um Vatnaheiði og hins vegar um Bröttubrekku þar sem vegaframkvæmdin er kláruð með öryggishandriðum. Svo hagar til á Kleifaheiði t.d. á sunnanverðri heiðinni að þar er samfelldur halli niður og tiltölulega bratt út af veginum öðrum megin. Þar er ekkert veghandrið komið eftir því sem ég best veit. Það má auðvitað nefna fleiri staði. Á Steingrímsfjarðarheiði er nýlegur vegur í Skötufirði þar sem ekki er búið að setja veghandrið á ýmsa kafla þar sem mjög bratt er út af vegstæðinu o.s.frv. Þess vegna hljóðar þessi fyrirspurn sem ég beini til hæstv. samgrh. svo:

1. Hvað líður lagfæringum á veginum yfir Kleifaheiði til að auka öryggi vegfarenda?

2. Hefur verið samið um að setja vegrið á heiðinni og ef svo er, hvenær verður það gert?

Ég minni á umferðaröryggisáætlun þar sem beinlínis er vikið að hinum hættulegu stöðum til aukins umferðaröryggis.