Öryggi vegfarenda á Kleifaheiði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:35:41 (3589)

2004-01-28 18:35:41# 130. lþ. 52.11 fundur 414. mál: #A öryggi vegfarenda á Kleifaheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr: ,,Hvað líður lagfæringum á veginum yfir Kleifaheiði til að auka öryggi vegfarenda?``

Núverandi vegur um Kleifaheiði er frá árunum 2000--2002 og því að mestu nýr. Við gerð þessa vegar var öryggi vegfarenda aukið verulega frá því sem var á eldri vegi, t.d. með breikkun hans og minnkuðum halla og lagfæringum á beygjum. Hönnun vegarins, þar á meðal uppsetning vegriða, var í samræmi við þær hönnunarforsendur sem Vegagerðin hefur sett að teknu tilliti til aðstæðna m.a. vegna vetrarþjónustu. Kröfur um vetrarþjónustu eru mismunandi eftir umferð. Kröfur í þeim flokki sem Kleifaheiði fellur í gerir ráð fyrir að flestar brekkur á heiðinni séu hálkuvarðar þegar flughálka myndast, en annars aðeins beygjur í Bárðargili og Seljagili. Þetta er erfitt verkefni og tímafrekt í hvert sinn sem hálka myndast. Eðlilegt er að líta á leiðina yfir Kleifaheiði í samhengi við aðrar leiðir í nágrenni Patreksfjarðar, sérstaklega leiðina til Bílduldals um Mikladal sem er í 369 metrum yfir sjó og Hálfdán sem er í 500 metrum. Á þessum fjallvegum eru brattari brekkur, mjórri vegir og meiri umferð, sérstaklega á morgnana. Því hafa þessir vegir forgang þegar hálka myndast og mundi það sama eiga við um uppsetningu vegriða.

Rétt er að benda á það að frá því að nýi vegurinn yfir Kleifaheiði var tekinn í notkun hefur veðurfari verið þannig háttað að mikið hefur verið um hálku og oft mjög mikla hálku á þessu svæði. Síðasta haust var aðstaða til hálkuvarna á Patreksfirði og nágrenni bætt með nýjum sanddreifara og rúmgóðri sandgeymslu þar.

Í reglum Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að hálkuverja flestar beygjur á Kleifaheiði í flughálku. Þegar hálka er minni er aðeins gert ráð fyrir að hálkuverja beygjurnar í Bárðargili og Seljagili. Svör þessi eru byggð á upplýsingum frá Vegagerðinni.

Í annan stað spyr hv. þm.: ,,Hefur verið samið um að setja vegrið á heiðinni og ef svo er, hvenær verður það gert?``

Svar mitt er þetta: Vegurinn um Kleifaheiði fer hæst í um 410 metra hæð yfir sjó og er víða nokkuð hátt fram af vegkanti. Umferð um hann er lítil og því ekki gert ráð fyrir vegriði nema í undantekningartilfellum. Vegrið hefur verið sett upp á einum stuttum kafla á heiðinni. Til álita getur komið að setja vegrið á fleiri staði með hliðsjón af þeirri reynslu sem fæst af veginum, einkum að vetrarlagi, en um það hefur ekki verið tekin ákvörðun.

Rétt er að benda á að hefðbundin vegrið sem byggð eru á bjálkum skapa ákveðið vandamál við snjómokstur. Bæði safna þau snjó inn á veginn og eins er ekki hægt að henda eins miklu af snjó eða ryðja út af veginum eins og hægt er þegar vegkantar eru fríir. Í gangi eru tilraunir, ég vil vekja sérstaka athygli á því, með nýja gerð vegriða sem byggð eru úr rörum. Með þeim minnkuðu þessi vandamál, en enn er verið að gera tilraun með þau og því ekki hægt að meta það á þessu stigi.

Þess ber að geta að staðlar sem hönnun vega byggir á eru í endurskoðun og þar á meðal gerð og uppsetning vegriða. Með breytingum á stöðlum með meiri kröfum um vetrarþjónustu og með betri vegum þarf því að sjálfsögðu að taka tillit til þessara ábendinga sem fram koma í fyrirspurn hv. þm. og ég tel það alveg einsýnt að það þurfi sem víðast að setja upp vegrið þar sem aðstæður gefa tilefni til að gera það. En við vitum að víða á fjallvegum er oft erfitt á vetrum þegar mikil snjókoma er og hvassviðri, þannig að vegriðin geta skapað erfiðar aðstæður fyrir þá sem þurfa að sinna vetrarþjónustunni.

En ég tek undir með hv. þm. að það þarf við hönnun vega að gera ráð fyrir þessum öryggisaðgerðum, og það er gert, en miðað við umferð og þær reglur sem Vegagerðin setur um hönnun veganna.