Öryggi vegfarenda á Kleifaheiði

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:40:41 (3590)

2004-01-28 18:40:41# 130. lþ. 52.11 fundur 414. mál: #A öryggi vegfarenda á Kleifaheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:40]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og vil í lokin hvetja til þess að hugað verði sérstaklega að því að setja vegrið á ýmsa vegi á Vestfjörðum. Eins og hæstv. ráðherra gat réttilega um hefur veðurfari verið þannig háttað t.d. á síðasta vetri að það gat verið mikil hálkumyndun á fjallvegum og það hagar reyndar einnig svo til nú.

Því miður hefur sums staðar ekki verið brugðist við fyrr en slysin hafa orðið og er hægt að nefna t.d. Gemlufallsheiði í því sambandi þar sem beinlínis varð dauðaslys áður en vegriði var komið þar upp. Ég ætla sannarlega að vona að það verði ekki slys á þeim vegaköflum á Vestfjörðum sem mér finnst skorta verulega á að sé nægilegt umferðaröryggi á með því að setja vegrið. Ég hef veitt athygli þeim vegriðum sem sett eru upp á Bröttubrekku þar sem notuð eru rör í staðinn fyrir það sem áður var og eru vonandi minna til trafala vegna snjóa.

Ég vil hvetja hæstv. samgrh. til þess að vinna vel að því að þessi mál fái betri framkvæmd. Mér finnst eins og öðruvísi sé staðið að framkvæmdum á Vestfjörðum en annars staðar á landinu og tel mig hafa nefnt dæmi um framkvæmdir sem ekki er lokið með endanlegum frágangi eins og vegriðum.

Í 8. atriði umferðaröryggisáætlunar segir, með leyfi forseta:

,,Vinna skal að því að bæta umferðarmannvirki með tilliti til aukins umferðaröryggis. Jafnframt þarf að bæta umhverfi vega, en ein aðalorsök umferðarslysa á þjóðvegum er útafakstur og þá ræður umhverfi vegarins úrslitum um hve alvarlegar afleiðingarnar verða.``

Þetta held ég að sé algjörlega rétt og tel að það þurfi að gera átak í þessum málum.