Kostnaður við að stofna fyrirtæki

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:57:08 (3596)

2004-01-28 18:57:08# 130. lþ. 52.12 fundur 393. mál: #A kostnaður við að stofna fyrirtæki# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:57]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það er mikilvægt að nýta þann mikla frumkvöðlakraft sem ríkir með þjóðinni, og ekki síst með unga fólkinu. Ég held að þar sé mikinn vaxtarbrodd að finna í okkar atvinnulífi og gæti nefnt þó nokkur dæmi um slíkt sem er ánægjulegt.

En eins og ég sagði í svari mínu er hér í raun um mál að ræða sem fellur undir lög um aukatekjur ríkissjóðs og ég ætla ekkert að fullyrða að það geti ekki verið um það að ræða að þarna sé verið að taka skatt af einstaklingum, að þetta sé ekki nákvæmlega sá kostnaður sem til fellur í tengslum við það að skrá félög, hvort sem um hlutafélög eða einkahlutafélög er að ræða. Ég vil þó halda því til haga að það er ekki bara kostnaður við að skrá, það er ákveðið utanumhald sem einnig kostar peninga.

En mér finnst ég fá dálítið misvísandi skilaboð frá hv. þingmönnum Samf. vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur oft haft um það mörg orð hér á hv. Alþingi að það sé allt of mikið um skráningu t.d. einkahlutafélaga. Og það er ekki annað að heyra á henni en að hún vilji helst að þetta sé bara dýrara til þess að vera ekki að skrá svona mörg einkahlutafélög. Eins og ég segi, það eru misvísandi skilaboð sem mér berast frá hv. þingmönnum Samf. í þessum efnum.

Ég er miklu meira sammála hv. þingmanni og formanni Samf., Össuri Skarphéðinssyni, þegar hann í raun vekur athygli á mikilvægi þess að fólk geti, án allt of mikils kostnaðar og fyrirhafnar og vandræða, skráð félög því að það er það sem allt byggir á, að við séum hér með öflugt atvinnulíf.