Neytendastarf

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 18:59:36 (3597)

2004-01-28 18:59:36# 130. lþ. 52.13 fundur 422. mál: #A neytendastarf# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[18:59]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. iðn.- og viðskrh. hvort ráðherra hafi fyrirætlanir um að efla neytendastarf hérlendis, t.d. með auknum fjárframlögum til þess, í öðru lagi með því að styrkja neytendasvið Samkeppnisstofnunar, í þriðja lagi með stofnun embættis umboðsmanns neytenda og í fjórða lagi með samningi við Neytendasamtökin um tiltekin verkefni á neytendasviði.

Neytendavernd er lítil á Íslandi þó að samkeppnislög, Neytendasamtökin og ýmislegt fleira bæti sannarlega úr. Því er mikilvægt að til komi lagalegar úrbætur á réttarstöðu neytenda og brotið verði í blað í réttindum almennings gagnvart verslun og þjónustu hvers konar og ekki síður að framlög verði aukin verulega til neytendaverndar hérlendis. Þá er ekki síður mikilvægt að efla neytendasvið Samkeppnisstofnunar sem er fjársvelt og illa haldið af íslenskum stjórnvöldum.

Undanfarna mánuði og missiri hefur mikið verið rætt um samráð stórfyrirtækja, samþjöppun og meinta aðför stórfyrirtækjanna að lífskjörum almennings á Íslandi með samráði og fákeppni. Hér er lúxusverð á matvælum. Tryggingar eru með því hæsta sem þekkist. Bankarnir eru með himinháa vexti á sama tíma og þeir raka að sér gróða. Og lítið virðist fara fyrir raunverulegri samkeppni á mörgum sviðum samfélagsins þrátt fyrir einkavæðingu og breytt samfélagsform.

Við Íslendingar búum við agnarsmáan markað og því er hættan af fákeppninni himinhrópandi á flestum sviðum. Við þessari þróun verður að bregðast með því að efla t.d. Samkeppnisstofnun og neytendasvið hennar, og neytendavernd almennt og hvers konar. Það er t.d. sterk hefð fyrir góðri neytendavernd á Norðurlöndunum og til dæmis um það er að þar eru starfandi sérstakir embættismenn, umboðsmenn neytenda, auk neytendastofnenda á vegum hins opinbera og kraftmikilla frjálsra félagasamtaka í formi neytendasamtaka. Neytendasamtökin íslensku hafa t.d. lengi óskað eftir því að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns neytenda hérlendis en stjórnvöld hafa hafnað því fram að þessu og telja að Samkeppnisstofnun gegni þessu hlutverki.

Ég tel mikilvægt að embætti umboðsmanns neytenda verði sett á stofn og er það brýnn þáttur í að efla neytendavernd á Íslandi sem er eina norræna ríkið sem er ekki með sérstakt embætti umboðsmanns neytenda.

Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. viðsk.- og iðnrh., sem ég gat um hér í upphafi:

Hefur ráðherra fyrirætlanir um eftirfarandi:

a. að efla neytendavernd með því að auka fjárframlög til hennar?

b. með því að styrkja neytendasvið Samkeppnisstofnunar?

c. með stofnun embættis umboðsmanns neytenda?

d. með samningi við Neytendasamtökin um tiltekin verkefni á neytendasviði?