Neytendastarf

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 19:07:52 (3599)

2004-01-28 19:07:52# 130. lþ. 52.13 fundur 422. mál: #A neytendastarf# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[19:07]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég skil ekki hvað hæstv. ráðherra var að meina með síðustu tveimur mínútunum í svari sínu þar sem hún var að kenna Neytendasamtökunum að vera til. Ég vona að henni gefist á eftir tími til að skýra það betur. En það er þrennt sem ég vil segja.

Í fyrsta lagi held ég að reynslan af neytendasviði Samkeppnisstofnunar, einum viðskiptafræðingi og einum lögfræðingi, sé ekki nógu góð og augljóst sé að einhvers konar nýja stjórnsýslu þurfi til að taka utan um neytendamálin. Ég skil ekki heldur af hverju hæstv. ráðherra, sem ég veit að hefur einlægan og góðan áhuga á neytendamálum og er hlynnt þessum málaflokki, spekúlerar ekki meira í umboðsmanni neytenda.

Í öðru lagi. Í hennar tíð hefur upphæð framlaga, þ.e. samkvæmt samningum við Neytendasamtökin, hækkað. Það er þó ekki meira en svo að upphæðin er núna 10 millj. kr. en rekstur kvörtunar- og upplýsingaþjónustu Neytendasamtakanna, sem er mjög þörf starfsemi af þeirra hálfu, kostar 26 millj. kr.

Í þriðja lagi verð ég að segja, vegna umræðunnar áðan, að það er leiðinlegt þegar jafnvænir ráðherrar og hæstv. viðskrh. kemur upp, hefur síðasta orðið (Forseti hringir.) og notar það til að fara með augljósar rangfærslur um afstöðu þingmanna eins og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem bar saman skattamál á sínum tíma (Forseti hringir.) en barðist auðvitað ekki gegn stofnun hlutafélaga.

(Forseti (JBjart): Forseti vill enn og aftur áminna hv. þm. Mörð Árnason um að halda sig innan tilskilins ræðutíma en fara ekki ítrekað út yfir þau mörk.)