Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:42:52 (3612)

2004-01-29 10:42:52# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að stjórnarandstaðan fimbulfambar hér mjög um vanhæfi hv. þm. Péturs H. Blöndals án þess að nefna með einu einasta orði þær reglur sem þar kynnu að liggja til grundvallar. Ég hef hlustað með athygli á þessar umræður og það hefur hvergi komið fram að menn séu að styðjast við lög eða reglur um það að hv. þm. sé vanhæfur.

Nú vill svo til að við hv. þm. Pétur Blöndal erum afar ósammála í þessu sparisjóðsmáli. Ég er mjög ósammála honum. En ég efast ekki eina sekúndu um það að hv. þm. getur stjórnað efh.- og viðskn. með prýðilegum hætti, kallað til sín fólk til þess að upplýsa þetta mál.

Það er auðvitað ekkert sem meinar hv. þm. að stjórna þessari nefnd og koma á þessum fundi nema ef það væri ofríki stjórnarandstöðunnar sem hefur verið að reyna að koma í veg fyrir það að efnisleg umræða um þetta mál gæti farið fram þannig að hægt væri að varpa ljósi á það. Ég tek alveg undir það, tek m.a. undir með hv. 9. þm. Reykv. suður, um það að það er mjög mikilvægt að menn hætti að þvælast um í þessum formsatriðum og reyni frekar að snúa sér að því að upplýsa málið og reyna að varpa ljósi á það. Ég er alveg sammála því að þetta er mjög stórt mál. Þetta er mál sem varðar mjög mikla hagsmuni og ég tel að það skipti mjög miklu máli að það sé þannig að sparisjóðahópurinn geti staðið sameinaður á eftir, en ég held hins vegar að það þjóni ekki þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir það að við getum tekið þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt að umræðan geti farið fram. Það er mjög mikilvægt að efh.- og viðskn. komi saman. Það er mjög mikilvægt að hún geti kallað til sín gesti sína og það er mjög mikilvægt að komið verði í veg fyrir það að stjórnarandstaðan með ofbeldi sínu komi í veg fyrir að fólk sem er komið m.a. utan af landi geti hitt þingmenn og rætt þessi mál, varpað ljósi á þau og komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Þess vegna hvet ég stjórnarandstöðuna til þess að láta af þessum ljóta og leiða ósið sínum og opna frekar á möguleikana á því að þingmenn og hagsmunaaðilar geti hist á fundi í efh.- og viðskn. og rætt þessi mál.

Varðandi athugasemd hv. þm. Jóns Bjarnasonar um heilbrigðismálin þá vek ég athygli á því að í dag er fyrirhugaður tveggja tíma fundur í þinginu um heilbrigðismál og ég vil líkja vekja athygli á því (Forseti hringir.) að það voru ekki síst við stjórnarliðar sem hvöttum mjög til þess að sú umræða gæti farið fram strax í dag þannig að okkur var síst að vanbúnaði að eiga þessa umræðu.