Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:51:52 (3616)

2004-01-29 10:51:52# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:51]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði í bókun sinni að nefndin væri að fjalla um málefni SPRON. Svo er ekki. Hann bað um fund til að fjalla um afleiðingar þess sem gerðist hjá SPRON fyrir aðra sparisjóði, og ég var tilbúinn til að ræða það.

Málefni SPRON eru í eðlilegum farvegi hjá Fjármálaeftirliti og Samkeppnisstofnun og bíður ákvörðunar hluthafafundar hjá Kaupþingi og stofnfjáreigendafundar hjá SPRON.

Varðandi það að vísa mönnum úr nefnd þá er það náttúrlega mjög alvarlegur hlutur og ég vara menn við því. Hugsið þið ykkur, hv. þm., herra forseti, að meiri hluti nefndarinnar samþykki að vísa minni hlutanum úr nefndinni af því að hann er óþægilegur. (Gripið fram í: Þér hefur dottið það í hug?) Mér hefur ekki einu sinni dottið það í hug, herra forseti.

Varðandi það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði um fé án hirðis, sem ég hef margoft nefnt. Ég barðist á móti þessum lögum. En það er ekki þar með sagt að ég telji að aðrir séu hæfari til að fara með þetta fé en ég. Ég geri mér þó alla vega grein fyrir hættunum sem þessu fé fylgir, bæði varðandi úthlutanir og eins varðandi valdið sem peningarnir veita. Ég taldi mér því skylt að fara í stjórn SPRON til þess að gæta hagsmuna stofnfjáreigenda.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar um að það hafi ekki verið haldinn fundur. Það var haldinn fundur, það náðist tími hjá öllum nefndarmönnum. En vegna dagskrártillögu Samfylkingarinnar, formsatriðis, varð að aflýsa þeim fundi. Síðan þá hef ég verið að leita færis að boða nýjan fund því að ég er áhugamaður um að fá að heyra í þeim gestum sem komu á fundinn. Það hefur bara ekki tekist. Varaformaður nefndarinnar er erlendis þessa viku, hv. þm. Kristinn Gunnarsson, og hann óskaði eftir því að fá að vera með á þessum fundi. Í síðustu viku voru framsóknarmenn með þingflokksfund á Suðurlandi og svona hefur þetta gengið, það hefur ekki tekist að halda fund vegna þess að Samfylkingin stóð fyrir því að útiloka síðasta fund.