Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:12:09 (3621)

2004-01-29 11:12:09# 130. lþ. 53.2 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv., KJúl
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:12]

Katrín Júlíusdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hefur dómsmrh. lagt fram frv. til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa á þskj. 670.

Ég vil byrja á að fagna þessu frv. sérstaklega. Ég tel að þessi lagasetning sé af hinu góða og að hugsunin í frv. sé rétt. Um er að ræða mjög mikilvæga starfsgrein. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir almenning enda er þetta starfsgrein sem sýslar með lífssparnað almennings, framtíðareignir, sparnað og einnig skuldir almennings.

Í frv. er mjög margt til bóta og án efa verður farið vel yfir þetta mál í allshn. Ég vil þó koma inn á nokkur atriði sem ég tel vert að skoða nánar. Ég vil nefna fjögur þeirra hér.

Í fyrsta lagi er í 19. gr. frv. kveðið á um sérstaka eftirlitsnefnd sem starfi í tengslum við Félag fasteignasala. Þessi eftirlitsnefnd á að hafa ríkar skyldur og ætlast er til að Félag fasteignasala beri kostnað af störfum nefndarinnar. Af þessu hef ég nokkrar áhyggjur miðað við hinar ríku skyldur sem nefndin mun hafa. Gera má ráð fyrir að þetta eftirlit verði töluvert kostnaðarsamt og tel ég rétt að ríkisvaldið leggi til fé til að standa straum af hluta þessa kostnaðar til að tryggja lágmarksskilvirkni nefndarinnar. Eins og áður hefur komið fram eru gríðarlegir hagsmunir neytenda í húfi og ríkisvaldið er að sjálfsögðu fulltrúi þeirra. Að öðrum kosti fellur töluverður kostnaður á greinina sjálfa eigi eftirlitsnefndin að geta uppfyllt skyldur sínar að fullu, eins og við gerum kröfu um. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að hér sé verið að velta of miklum kostnaði yfir á starfsgreinina sem gæti leitt til þess að árangurinn verði ekki eins og til er ætlast í lögunum.

Í öðru lagi vil ég nefna að ég tel rétt að við svona lagasetningu, sem er mjög af hinu góða, verði tekin alvöruskref í menntunarmálum fasteignasala. Í frv. er stefnt í rétta átt, t.d. með kröfu um stúdentspróf eða sambærilega menntun en mér finnst að gera megi enn ríkari kröfur um verklega reynslu í lögunum en gert er ráð fyrir í frv.

Í öðru starfsnámi er gerð krafa um lengri tíma undir handleiðslu meistara. Ég tel rétt að hið sama eigi við um þessa starfsgrein. Skoða ætti betur að áður en fólk geti leyst út löggildingarskírteini sín hafi það góða reynslu fyrir og eftir nám. Í þessu sambandi hafa verið nefndir 18 mánuðir fyrir próf og 18 mánuðir eftir próf. Mér finnst að úr því að fara á út í þessa lagasetningu þá eigum við að skoða af fullri alvöru hvort 12 mánaða verkleg reynsla nægi. Hér eru miklir hagsmunir almennings í húfi. Þetta er mikilvæg starfsemi. Við verðum að gera til hennar meiri kröfur og það á að gera þetta myndarlega. Við þurfum að gera kröfu um vandaða menntun og mikla reynslu til að tryggja fagmennsku. Við gerum slíkar kröfur til annarra starfsgreina og það ætti ekki síður að gilda um þessa starfsgrein. Það eru hagsmunir starfsgreinarinnar og einnig hagsmunir neytenda.

Í þriðja lagi vil ég nefna stuttlega að mér finnst við eigum að skoða hvort sjálfsagt sé að lögmenn öðlist þessi réttindi sjálfkrafa, hvort þeir eigi ekki að taka prófið eða hvort gera eigi til þeirra kröfu um einhverja verklega reynslu áður en þeir geta hafið slík störf. Mér finnst vert að skoða það. Á þetta hefur verið bent af Félagi fasteignasala og það þarf að skoða, sérstaklega í ljósi þess að nú er verið að leggja mun ríkari skyldur á fasteignasala hvað varðar upplýsingagjöf. Mér finnst rétt að við skoðum það nánar.

Í fjórða lagi vil ég líka nefna að mér finnst rétt að skoða einnig hvort ekki sé rétt að byggingaraðilum sem selja fasteignir sé gert skylt að kalla á aðkomu fasteignasala á fyrri stigum máls en gert er ráð fyrir í frv., fasteignasalarnir kæmu þar að kauptilboðum og tilboðsgerð og inn í kaupsamningana á fyrri stigum til að tryggja rétt neytendanna og þá faglegu og vönduðu meðferð sem við erum að gera kröfur um.

Það eru miklar skyldur, bæði faglegar og fjárhagslegar, sem lagðar eru á Félag fasteignasala með þessari lagasetningu. Ég tel því mjög mikilvægt að vinna í góðu samráði við félagið við vinnslu málsins.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns tel ég hugsunina í frv. þessu afar góða. En góð hugsun er ekki nóg því að þessi lög og einstakar greinar þess skipta miklu máli fyrir nánustu framtíð. Því er mikilvægt að vel sé til vandað og að góð sátt ríki um þau. Að lokum vil ég þakka þá miklu og hröðu vinnu sem lögð hefur verið í undirbúning þessa mikilvæga máls.