Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:31:51 (3624)

2004-01-29 11:31:51# 130. lþ. 53.2 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:31]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um að frv. sé mikil réttarbót. Það eru vissulega miklir hagsmunir almennings í húfi og sömuleiðis, sem hefur kannski ekki komið fram, eru hagsmunir fasteignasala líka mjög ríkir þ.e. að þær reglur sem um starfsemi þeirra gilda séu skýrar, ekki síst í ljósi þeirra áfalla sem sú stétt hefur orðið fyrir að undanförnu.

Mig langar til að víkja að einu atriði sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í ræðu sinni, ágætri ábendingu og málefnalegri sem ég tel að við í hv. allshn. eigum að taka til skoðunar. Það er skipan þessarar eftirlitsnefndar sem vikið er að í III. kafla frv. Þar er gert ráð fyrir að Félag fasteignasala tilnefni tvo nefndarmenn. Ég get alveg tekið undir að ég get hugsanlega séð það fyrirkomulag hentugra fyrir mér þannig að aðrir óháðir aðilar skipi slíka nefnd, svo sem einn löggiltur endurskoðandi og einn lögmaður ásamt þeim aðila sem hæstv. dómsmrh. mun tilnefna. Við sjáum t.d. í 21. gr. að þessari eftirlitsnefnd er, samkvæmt frv., heimilað að hafa eftirlit og fara í bókhald og önnur skjöl hjá fasteignasölum og það kann að skjóta skökku við að fasteignasalar sem hugsanlega verða tilnefndir í eftirlitsnefndina af hálfu Félags fasteignasala hafi aðgang að bókhaldi og skjölum hjá samkeppnisaðilum sínum. Það má vel vera að úr þessu megi bæta og ég hygg að við í hv. allshn. munum taka þetta atriði sérstaklega til skoðunar.