Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:37:37 (3627)

2004-01-29 11:37:37# 130. lþ. 53.2 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar víkja að 18. gr. Það er rétt að þar er gert ráð fyrir að menn séu skyldaðir til að ganga í þetta félag enda er um lögbundnar skyldur félagsins að ræða. Og það er lykilatriði sem menn verða að hafa í huga þegar þeir fjalla um skylduaðild að félögum að í landslögum sé tekið fram um hvaða málefni þessi félög eiga að fjalla og þess vegna sé unnt að mæla fyrir því í lögum að um lögbundna aðild að félögunum sé að ræða. Þetta er mjög mikilvægt atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga og þegar litið er á lokamgr. 18. gr. kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Félagi fasteignasala er heimilt að starfrækja í öðru skyni en mælt er fyrir um í lögum þessum, svo sem til þess að sinna símenntun félagsmanna eða starfsmanna þeirra, sérstaka félagsdeild, eina eða fleiri, sem fasteignasölum er frjálst að eiga aðild að. Skal fjárhagur slíkra félagsdeilda aðgreindur frá fjárhag félagsins.``

Þetta er gert til að menn átti sig á því að þarna er alveg um lögbundið hlutverk að ræða og þess vegna eru menn skyldaðir til aðildar að félaginu.

Síðan er það líka rökstutt ítarlega í greinargerð með frv., m.a. á bls. 46 um III. kafla frv., hvers vegna þessi leið er valin. Hún er valin til þess að tryggja enn betur en ella væri öryggi í umræddum viðskiptum og öryggi í slíku starfsumhverfi. Þess vegna er lagt til við Alþingi að þessi leið verði samþykkt. Eins og fram hefur komið á þetta mál vafalaust eftir að verða mikið rætt í nefndinni. Það er mikill áhugi á því eins og hér hefur fram komið og ég vænti þess að menn fari yfir þetta og skýri þá ef einhver vafaatriði eru í þessu tilliti. Frá sjónarmiði mínu sem er eindreginn talsmaður frjálsrar félagsaðildar er þetta ekki neitt brot á þeirri hugmyndafræði eða þeim hugsjónum sem við höfum sem viljum standa vörð um mannréttindi manna og rétt þeirra til að taka ekki þátt í félögum nema þegar staðið er að því með þeim hætti sem hér er gert. Það er algerlega í samræmi við allar reglur sem um þessi mál gilda þegar rætt er um þau frá mannréttindasjónarmiðum.