Lögmenn

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:42:52 (3629)

2004-01-29 11:42:52# 130. lþ. 53.3 fundur 463. mál: #A lögmenn# (lögmannsréttindi, EES-reglur o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum. Tilefni frv. eru ábendingar sem borist hafa um atriði sem betur mega fara í ljósi framkvæmdarinnar. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum vegna innleiðingar á EES-gerðum sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt EES-samningnum. Um það er fjallað í 1. gr. frv. þar sem lagt er til að gildissvið laganna verði rýmkað þannig að þau taki einnig til erlendra lögmanna sem heimild hafa til að starfa hér á landi í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Lagt er til að dómsmrh. setji nánari reglur um starfsemi slíkra lögmanna hér á landi, þar á meðal um réttindi þeirra og skyldur.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að veiting lögmannsréttinda verði ekki lengur bundin við þá sem ljúka embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands. Á móti kemur að gerðar eru auknar kröfur til þeirra sem sækja um að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi, sbr. 4. og 5. gr. frv. Þeir þurfi auk þess að standast sérstaka prófraun, afla sér starfsreynslu, annaðhvort sem lögmannsfulltrúar eða starfsmenn tiltekinna embætta ríkisins.

Í 6. gr. frv. eru lagðar til breytingar á 9. gr. laganna sem fjallar um skilyrði þess að öðlast réttindi til að verða hæstaréttarlögmaður. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á fjölda og eðli þeirra mála sem umsækjandi hefur flutt fyrir héraðsdómi. Í öðru lagi verði lagt niður það fyrirkomulag að leita þurfi samþykkis sérstakrar prófnefndar hvort mál sé tækt sem prófmál heldur sýni umsækjandi fram á að með prófraun sé hann hæfur til að öðlast réttindin. Gert er ráð fyrir að prófraunin felist í munnlegum flutningi fjögurra mála, þar af tveggja einkamála fyrir fimm eða sjö dómurum Hæstaréttar. Dómendur Hæstaréttar sem skipa dóm í viðkomandi máli meti svo hvort viðkomandi hafi staðist prófraunina. Lögð er áhersla á að tilgangur prófraunar sé að prófa málflutningshæfi lögmanns og að jafnaður verði aðgangur lögmanna að hæstaréttarlögmannsréttindum.

Nokkrar breytingar eru lagðar til á 12.--17. gr. laganna sbr. 7.--12. gr. frv. sem snúa að þeim tilvikum þegar lögmaður hyggst ekki nýta réttindi sín til lögmannsstarfa eða uppfyllir ekki lengur skilyrði til þess að njóta réttindanna. Gert er ráð fyrir því að lögmaður geti lagt réttindi sín inn til ráðuneytisins og þau verði lýst óvirk í stað þess að hann afsali sér réttindum sínum eins og nú er. Einnig er gert ráð fyrir því að réttindi lögmanns geti í tilteknum tilvikum verið felld niður bæði tímabundið og ótímabundið, þau geti fallið sjálfkrafa niður eða lögmaður verið sviptur réttindum sínum. Um þetta er ítarlega fjallað í almennum athugasemdum við frv. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum er varða notkun titilsins lögmaður þegar fengin hefur verið undanþága frá skilyrðunum um skrifstofu opna almenningi, vörslufjárreikning og starfsábyrgðartryggingu. Í frv. eru enn fremur lagðar til breytingar er lúta að eftirlitsskyldu Lögmannafélags Íslands og er lögð til sú breyting að félagið getur krafið lögmann um greiðslu kostnaðar við rannsókn á fjárreiðum hans, sbr. 8. gr. frv.

Aðrar breytingar sem nefna má eru að gert er ráð fyrir að skýrar verði kveðið á um skyldu lögmanns til að hafa sérstakan vörslufjárreikning. Einnig verði lögfest sú skylda lögmanns að senda Lögmannafélagi Íslands fjárvörsluyfirlýsingu og upplýsingar um verðbréf í hans vörslu og skal hvort tveggja staðfest af löggiltum endurskoðanda. Loks er nýmæli um að úrskurðarnefnd lögmanna geti ef sérstaklega stendur á ákveðið að málsaðilar greiði kostnað sem hlýst af störfum nefndarinnar við mál þeirra sbr. 17. gr. frv. Gert er ráð fyrir að málagjaldið renni til nefndarinnar.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.