Lögmenn

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:46:44 (3630)

2004-01-29 11:46:44# 130. lþ. 53.3 fundur 463. mál: #A lögmenn# (lögmannsréttindi, EES-reglur o.fl.) frv., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:46]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Frekar nýlega voru sett á laggirnar svokölluð lögmannanámskeið sem lögfræðingar verða að þreyta ætli þeir sér að starfa sem lögmenn. Í 4. gr. fyrirliggjandi frv. um breytingar á 6. gr. laganna er gert að skilyrði fyrir því að mega sitja umrætt lögmannanámskeið að lögfræðingur hafi unnið í a.m.k. sex mánuði sem fulltrúi lögmanns eða í eitt ár sem aðstoðarmaður dómara, fulltrúa, ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík eða sýslumanns að lokinni útskrift. Þetta nýmæli vekur upp nokkrar spurningar.

Útskrifaðir lögfræðingar eiga í dag það allir sammerkt að hafa lokið fimm ára námi frá Háskóla Íslands. Aðeins læknar hafa lengra nám að baki en lögfræðingar. Laganemar þurfa einnig á meðan á námi stendur að vinna lögfræðitengd störf, svokallaðan kúrsus, að lágmarki í tvo mánuði. Flestir laganemar vinna hins vegar störf tengd náminu í meira en eitt sumar og hafa því töluverða starfsreynslu við útskrift, hafandi ýmist starfað á lögmannsstofum eða hjá hinu opinbera. Nýútskrifaðir lögfræðingar hafa því nú þegar haft kynni af þeim störfum sem þeim er ætlað að vinna.

Eins og staðan er núna eru laganemar í fimm ár í laganáminu. Þeir þurfa nú þegar að afla sér sérstakrar starfsreynslu undir handleiðslu lögmanna á meðan á náminu stendur og ætli þeir sér að verða lögmenn þurfa þeir að fara aftur í nám eftir útskrift í tæpt hálft ár og taka svokallað lögmannanámskeið. Það eru því fá fagleg rök til þess að bæta enn frekar við vinnuskyldu að lokinni útskrift.

Ég held að ný kynslóð lögfræðinga komi vel undirbúin á vinnumarkaðinn. Lagadeildin hefur tekið miklum breytingum og býður upp á enn breiðari menntun en áður. Lögfræðingar dagsins í dag koma því sterkir út á vinnumarkað að loknu löngu námi. Það er einnig ljóst að starfssvið lögmanna eykst sífellt og hafa ný svið verið að opnast fyrir lögmönnum svo sem hjá fyrirtækjum og í alþjóðasamskiptum stjórnvalda.

Menn hafa verið að spá atvinnuleysi meðal lögmanna í meira en 30 ár. Þrátt fyrir mikla fjölgun í stéttinni hefur sú spá aldrei ræst. Áhrif þessa ákvæðis sem ég er að tala um hér yrðu hins vegar að líkindum þau að færri lögfræðingar störfuðu við lögmennsku en ella, enda virðast í fljótu bragði helstu rökin fyrir þessu ákvæði lögmannafrumvarpsins vera einfaldlega að vernda þá sem þegar starfa við lögmennsku.

Í yfirlýsingu Orators, félags laganema, kemur fram að í 90 ára sögu íslenskrar lagakennslu og veitingu lögmannsréttinda hefur hingað til ekki þótt vera þörf á að gera starfsreynslu að skilyrði fyrir öflun lögmannsréttinda. Hér er einfaldlega verið að gera fólki það erfiðara að óþörfu að öðlast lögmannsréttindi. Það er verið að vernda stéttina og í raun ber þetta keim af því að verið sé að búa til ódýrt vinnuafl úr nýútskrifuðum lögfræðingum.

Það skýtur einnig óneitanlega skökku við að ætla með þessu ákvæði frv. að takmarka nýliðun í lögmannastéttina á sama tíma og frv. gerir ráð fyrir í fyrsta skipti í sögu Íslands að aðrir skólar en Háskóli Íslands geti útskrifað lögfræðinga. Frumvarpið opnar möguleika manna til að verða lögfræðingar en þrengir um leið möguleika þeirra til að öðlast lögmannsréttindi. Það vekur jafnframt spurningar um réttmæti ákvæðisins þegar lagadeild Háskóla Íslands hefur metið þörf á lögfræðingum mikla og hefur m.a. ákveðið að lágmarkseinkunn í almennri lögfræði skuli vera 6 en ekki 7 til þess að fjölga þeim sem ljúka prófi sem lögfræðingar.

Í frv. er gildistaka þessara breytinga einnig óljós verði þær samþykktar. Hvernig mun þetta nýja skilyrði um starfsreynslu snerta þá sem eru nú þegar í námi? Verði frv. samþykkt óbreytt verður að telja að þá sé verið að koma allillilega aftan að þeim einstaklingum sem hófu laganámið að ákveðnum reglum og forsendum gefnum.

Herra forseti. Í fyrirliggjandi frv. er einnig tekið á þeirri staðreynd að fleiri en ein lagadeild eru nú starfræktar á Íslandi. Þess má m.a. sjá merki í 4. gr. frv. þar sem skilyrði fyrir að fá að taka lögmannanámskeiðið er m.a. að viðkomandi hafi lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er af menntmrn. samkvæmt lögum um háskóla. Skilyrðið yrði þá ekki lengur eingöngu bundið við lagadeild Háskóla Íslands, en reyndar er nú þegar heimild til staðar í núgildandi lögum um að leggja megi að jöfnu sambærileg próf frá öðrum háskóla ef sérstök prófnefnd samþykkir það.

Ég vil byrja á að fagna auknum valmöguleikum stúdenta og laganema á Íslandi. Samkeppnin er af hinu góða og nú þegar má merkja jákvæðar breytingar á lagadeild Háskóla Íslands í kjölfar aukinnar samkeppni. En þó verður að gera ákveðnar kröfur til hinna nýju skóla alveg eins og kröfur eru gerðar til Háskóla Íslands. Það má ekki slaka á kröfunum eingöngu sakir þess að menn eru ánægðir með hið nýja framtak.

Lögfræðingar gegna veigamiklu hlutverki og þeir starfa stöðugt á fleiri sviðum samfélagsins. Lögfræðingar starfa hjá ríki, sveitarfélögum og einkaaðilum. Þáttur þeirra í stjórnsýslunni er stór og þeim eru fengin ábyrgðarhlutverk í samfélaginu. Þeir einir geta orðið lögmenn sem veitir þeim síðan einnig ákveðnar skyldur og réttindi. Lögmenn eru það sem kallað er opinberir sýslumenn. Það verður því að viðurkenna ákveðna sérstöðu laganámsins vegna þessa.

Það er jafnframt réttmæt krafa þeirra sem nema lög við nýja háskóla að þeir standi jafnfætis laganemum Háskóla Íslands, að þeir séu jafn vel í stakk búnir til að takast á við lögfræðistörf að lokinni útskrift og að þeir eigi jafnmikla möguleika á því að standast lögmannanámskeiðið að loknu námi og þeir séu samkeppnishæfir að loknu námi.

Það er því mikilvægt að fá þá aðila inn í umræðuna sem besta þekkingu hafa á lagakennslu og laganámi, þ.e. háskólana sjálfa. Ég hlakka því til að heyra í viðkomandi lagadeildum og fá jafnvel forsvarsmenn deildanna á fund allshn. og heyra hugmyndir þeirra um hvað þeir telji felast í orðunum fullnaðarnám í lögfræði og þá sérstaklega út frá því laganámi sem þeir bjóða upp á eða stefna að því að bjóða upp á í framtíðinni.