Umferðarlög

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 12:06:31 (3633)

2004-01-29 12:06:31# 130. lþ. 53.4 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987. Í frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á umferðarlögum sem lúta m.a. að bættu umferðaröryggi. Lagt er til í 3. gr. frv. lögfesting á því að eftirlit með aksturs- og hvíldartíma tiltekinna atvinnubílstjóra verði í höndum sérstakra embættismanna á vegum Vegagerðarinnar sem sjá um eftirlit með reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanns. Lagt er til að lögreglumönnum og eftirlitsmönnum Vegagerðar sé heimilt að stöðva ökutæki í þeim tilgangi að skoða upplýsingar sem er að finna í ökurita ökutækisins, á ökuritakorti eða þær upplýsingar sem þar eru varðveittar með öðrum hætti.

Eins og kunnugt er hafa staðið deilur um reglur Evrópusambandsins um aksturs- og hvíldartíma og reynt hefur verið að haga framkvæmd þeirra á Íslandi þannig að skynsamlegt sé miðað við okkar aðstæður. Það er þó staðreynd að hér er svigrúmið lítið til þess að við getum tekið tillit til okkar eigin hagsmuna, ef þannig má að orði komast, þegar litið er á Evrópureglurnar og setningu þeirra. En yfirstjórn þessa málaflokks færist nú með umferðarmálum frá dómsmrn. til samgrn. Umferðarmálin hafa verið í dómsmrn. í rúm 60 ár en eru nú að flytjast til samgrn. og er þetta síðasta frv. sem dómsmrh. flytur um umferðarmál ef að líkum lætur því að reglugerð Stjórnarráðsins hefur verið breytt og málaflokkurinn hefur verið fluttur frá dómsmrn. yfir til samgrn.

Gert er ráð fyrir breytingu á 5. gr. frv. er varðar öryggis- og verndarbúnað barna í bifreiðum samanber 71. gr. umferðarlaga um öryggis- og verndarbúnað. Lagt er til að ekki verði einungis skylt að nota öryggisbelti heldur einnig til að nota annan viðurkenndan öryggisbúnað, svo sem öryggisbelti, barnabílstól eða annan sérstakan búnað sem sérstaklega er ætlaður börnum. Um er að ræða innleiðingu á gerð sem kennd er við Evrópska efnahagssvæðið. Einnig er lagt til að barn sem er lægra en 150 sm á hæð megi ekki vera farþegi í framsæti bifreiðar sem búin er uppblásanlegum loftpúða fyrir framan sætið. Ég legg áherslu á að þetta ákvæði snýr einvörðungu að öryggi barna í umferðinni og verndar þau gegn þeirri hættu sem getur skapast þegar öryggispúðinn blæs upp við árekstur eða af öðrum ástæðum.

Einnig er í frv. miðað að því að leystur verði vandi sem skapast hefur um svokölluð vélknúin hlaupahjól og þau verði talin til reiðhjóla. Vafi hefur ríkt um skilgreiningu slíkra tækja og hvaða reglur ættu að gilda um þau í umferðinni, enda um nýja tegund farartækja að ræða. Lagt er til að ekki megi aka vélknúnum hlaupahjólum á akbrautum enda mundi að öðrum kosti skapast af þeim augljós hætta.

Í 8. gr. frv. er lögð til breyting á tímalengd sviptingar ökuréttar vegna fyrsta ölvunarakstursbrots þannig að hún taki mið af magni vínanda í blóði og lofti. Er það í tilefni þeirrar dómvenju sem skapast hefur og sem staðfest hefur verið af Hæstarétti að í slíkum tilvikum sé beitt lágmarkssviptingu ökuréttar án tillits til vínandamagns í blóði og lofti umrætt sinn. Breytingin er m.a. lögð til vegna ábendinga ríkissaksóknara.

Loks miðar frv. að skilvirkari innheimtu gjalda vegna vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar. Í stað sekta verður lagt gjald á eigendur eða umráðamenn bifreiða vegna vanrækslu á aðalskoðun eða endurskoðun og einfaldar það mjög alla málsmeðferð, en sektarinnheimta er töluvert þyngri í vöfum en innheimta stjórnsýslugjalds.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgn. og 2. umr. Þar sem þessi málaflokkur heyrir framvegis undir samgrn. er eðlilegt að hv. samgn. fjalli um málið í þinginu en ekki allshn. sem fjallar um málefni frá dómsmrh.