Umferðarlög

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 12:12:29 (3635)

2004-01-29 12:12:29# 130. lþ. 53.4 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil gera að umræðuefni breytingar á lögum nr. 50 frá 30. mars 1987. Nánar tiltekið eru það 3. og 4. gr. þessarar lagabreytingar sem ég vil hefja umræðu um sem fjalla um aksturs- og hvíldartíma. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að setja reglur um þessi atriði. Hér erum við að fullnægja regluverki Evrópusambandsins og það höfum við gert hingað til.

Það sem ég vil nefna sérstaklega, og kom að hluta fram í framsögu ráðherra, eru séraðstæður á Íslandi hvað þetta varðar, þ.e. okkar land, atvinnuhættir okkar, veðurfar, árstíðir og þeir farmar sem við flytjum. Það þarf að taka tillit til þessa í þeim reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga.

Það þekkist og hefur fengist reynsla hvað þessi lög varðar, til að mynda þegar verið er að aka ferskum fiski milli landshluta og þar sem við erum með dýran farm sem þarf að komast greiðlega milli landshluta þá getur skipt sköpum, ef veðurfar er slæmt, hvort viðkomandi bílstjóri er innan tilsettra marka. Þarna þurfum við að hafa meiri sveigjanleika í þeim reglum sem settar verða og við hljótum að verða að taka tillit til séraðstæðna okkar á Íslandi. Það er útilokað annað en að reyna að ná því fram að taka tillit til séraðstæðna okkar.

Herra forseti. Mikil umræða hefur orðið á Alþingi um flutningskostnað hvað landsbyggðina varðar. Mér sýnist að lögin er varða ökurita muni áfram verða íþyngjandi og til hækkunar á flutningskostnaði hér á landi.

Það má líka leiða hugann að því að við erum að setja í öryggisskyni reglur og taka upp reglur er varða bílstjóra. Við erum ekki að taka upp reglur um önnur störf sem innt eru af hendi með svipuðum hætti hér á landi. Til að mynda eru þeir sem stjórna vinnuvélum ekki háðir þessum tímamörkum. Menn sem stjórna tækjum sem fjöldi fólks vinnur undir, engin tímamörk eru á því hvað slíkir aðilar mega vinna. Það er heldur ekki hægt að hafa eftirlit með því ef menn fara á milli starfa innan sama fyrirtækis, úr starfi sem ekki er ökuritaskylt á ökutæki sem eru ökuritaskyld, eða fara á milli starfa í ólíkum fyrirtækjum. Ég tel því að þarna sé verið að mismuna verulega atvinnugreinum. Við eigum að treysta betur þeim bílstjórum sem hafa tekið próf til sinna starfa til að vega og meta hvað þeir treysta sér að gera í hvert skipti.

Eftirlitið hefur mikinn kostnað í för með sér. Frv. gerir bókstaflega ráð fyrir því að kostnaður Vegagerðarinnar aukist verulega, það kemur fram í grg. með frv. Sá kostnaður verður annaðhvort á ríkissjóði, Vegagerð eða með einum eða öðrum hætti fluttur yfir á flutningskostnaðinn. Í grg. með frv. er ekki komið inn á það hver kostnaðarauki atvinnulífsins verður við þessa breytingu og ég óttast að hann verði umtalsverður eins og ég hef áður komið að.

Hvað varðar eftirlitsiðnaðinn, þá verðum við að vega og meta í hvert skipti hvar við eigum að leggja þungavigt á eftirlitið. Eigum við að leggja meiri vigt á þetta eftirlit en t.d. almennt eftirlit og löggæslu í landinu, eftirlit með fíkniefnum? Við verðum að vega og meta hvað á að leggja miklar fjárhæðir einmitt í þetta. Mig grunar að þessi kostnaður sé býsna hár.

Herra forseti. Ég vona að athugasemdir mínar verði teknar til skoðunar í umfjöllun um frv.