Fullnusta refsingar

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 12:20:03 (3637)

2004-01-29 12:20:03# 130. lþ. 53.5 fundur 465. mál: #A fullnusta refsingar# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[12:20]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um fullnustu refsingar. Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, og nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga er varða fullnustu refsinga. Miðar frv. bæði að því að gera gildandi ákvæði skýrari og ítarlegri og að lagastoð ýmissa atriða er varða fullnustu refsinga verði styrkt, á það ekki síst við um ákvæði um ýmis réttindi og skyldur fanga.

Í frv. eru lögð til ýmis nýmæli og breytingar og vísast um það til almennra athugasemda með frv. Snúa þær bæði að starfsfólki fangelsa, þeim sem þar eru vistaðir og gestum þeirra. Lagt er til að fangaverðir og annað starfsfólk fangelsa sé bundið þagnarskyldu áþekkri þeirri sem lögreglumenn hlíta, sbr. 8. gr. frv. Enn fremur er lagt til að fangaverðir hafi heimild til valdbeitingar ef nauðsyn krefur, sbr. 7. gr. frv., en aldrei megi ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Einnig hér er fyrirmyndin sótt til lögreglulaga.

Þá eru lögð til ákvæði til að stemma stigu við smygli á munum og efnum til fanga sem honum er óheimilt að hafa í fangelsi. Því miður kveður töluvert að slíkri háttsemi og er það vitaskuld bagalegt, bæði með tilliti til fangelsissamfélagsins í heild, tilgangs refsivistar og öryggis í fangelsum. Til lausnar á vandanum er í fyrsta lagi lagt til að heimilt verði að leita á þeim sem heimsækja fanga og að láta þá gangast undir líkamsrannsókn, sbr. 33. gr. frv. Munir eða efni sem finnast á gestum skuli vera í vörslu fangelsis á meðan á heimsókn stendur en ef varsla slíkra muna eða efna er refsiverð er lagt til að fangelsisyfirvöldum verði heimilt að leggja hald á þessi efni og muni.

Í 84. gr. frv. gert ráð fyrir að smygl verði refsiverð háttsemi þannig að smyglið verði gestum ekki án áhættu.

Í III. kafla frv. hefur verið leitast við að gera réttindum og skyldum fanga skýr skil. Þar er m.a. lögð til lögfesting á ítarlegum ákvæðum um símtöl og bréfaskriftir. Þá lúta nokkur ákvæði eingöngu að réttindum fanga, þ.e. rétti þeirra til að njóta útiveru, iðka tómstundir, aðgangi að hreinlætisaðstöðu og aðgangi að fjölmiðli til að fylgjast með gangi þjóðmála, rétti til að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags o.fl., sbr. 38.--41. gr. frv.

Í 42. gr. eru talin upp þau tæki sem fanga er leyfilegt að hafa í klefa sínum. Allt miðar þetta að því að marka skýran lagaramma um fangelsisvistina, föngum og fangelsisyfirvöldum til hagsbóta.

Um leyfi úr fangelsi er fjallað í IV. kafla frv. Gert er ráð fyrir að fangi fái ekki leyfi nema í undantekningartilvikum og að lögfest verði þau tilvik þegar fangi á rétt á leyfi. Fangi getur fengið leyfi til að heimsækja fjölskyldu eða vini ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun sbr. 43. gr. Þá eru ákvæði um leyfi vegna veikinda nákominna ættingja, jarðarfarar, kistulagningar, fæðingar, skírnar o.fl. í 44. gr. frv. Ekki er um grundvallarbreytingar að ræða frá því sem nú gildir samkvæmt reglugerð.

Auk þessara tilvika getur fangi fengið leyfi til að stunda nám eða starfsþjálfun sbr. 45. gr. Um skilyrði og sjónarmið fyrir veitingu leyfis er fjallað í 46. gr. Vert er að geta þess að leyfi fanga til dvalar utan fangelsis skulu almennt vera án fylgdar fangavarða nema hann hafi verið dæmdur fyrir alvarleg afbrot eða háttsemi hans í fangelsi gefið tilefni til að fangaverðir fylgi honum í leyfi.

Nýmæli er í frv. um leit í fangaklefa og leit á fanga sbr. 53. og 54. gr. Um líkamsrannsókn er fjallað í 55. gr. Gert er ráð fyrir að læknir eða hjúkrunarfræðingur annist líkamsrannsókn og skal ákvörðun um hana tekin með rökstuddri bókun. Í frv. eru fleiri ákvæði er varða heilsugæslu fanga og hlutverk heilbrigðisstétta. Ekki er þó gert ráð fyrir breytingum frá núgildandi lögum og framkvæmd.

Ýmis önnur ákvæði eru í frv. sem miða m.a. að því að gera réttarstöðu fanga skýrari. Á þetta m.a. við um haldlagningu og eignaupptöku og önnur úrræði sem eru íþyngjandi í garð fanga en nauðsynleg til að gæta öryggis og góðrar reglu í fangelsi. Nokkur álit umboðsmanns Alþingis hafa sýnt að um vandameðfarinn málaflokk er að ræða og hefur verið höfð hliðsjón af þeim þar sem við á við gerð frv.

Nýmæli er í 56. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir sérstakri heimild til haldlagningar á munum sem finnast á föngum eða í fangaklefum. Annað nýmæli varðar heimild forstöðumanns fangelsis til að gera upptæka muni eða peninga sem smyglað hefur verið inn í fangelsi sem ekki eru eign grandalauss þriðja manns. Að öðrum kosti þarf fangelsi að geyma um árabil alls konar muni og peninga sem hafa komist ólöglega inn í fangelsi.

Þá er fjallað um samfélagsþjónustu og reynslulausn í VI. g VII. kafla frv. Ekki eru lagðar efnisbreytingar að neinu marki á núgildandi ákvæðum um samfélagsþjónustu enda hefur það fyrirkomulag sem ríkir hér á landi reynst ágætlega og því ekkert tilefni til að leggja til breytingar þar á.

Þá er lagt til að ákvæði almennra hegningarlaga um reynslulausn verði nær óbreytt færð í lög með fullnustu refsinga. Þau þykja betur eiga heima í slíkum lögum ef samþykkt verða. Ekki er um teljandi efnisbreytingar að ræða.

Loks er lagt til að ákvæðum almennra hegningarlaga um fullnustu fésekta verði skipað í lög um fullnustu refsinga. Má þá segja að þeirri endurskipan lagaákvæða um fullnustu sem gerð var við setningu laga um fangelsi og fangavist árið 1998 sé lokið.

Herra forseti. Ég læt hér staðar numið þótt hægt væri að nefna mörg fleiri atriði úr þessu lagafrv. en um þau nýmæli ætla ég ekki að fjalla frekar en vísa til grg. með frv. og legg að lokum til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.