Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 13:35:40 (3641)

2004-01-29 13:35:40# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég fagna þessu tækifæri til að ræða um heilbrigðismál og tel mikilvægt að byrja þá umræðu á því að taka fram nokkur atriði um íslenska heilbrigðiskerfið.

Það má segja að það sé tvennt sem einkennir íslensku heilbrigðisþjónustuna. Hún er í fyrsta lagi mjög góð í alþjóðlegum samanburði. Í öðru lagi byggist hún á færu fagfólki og í þriðja lagi er aðgengi hér og réttur sjúklinga til þjónustu með því besta sem gerist. Hér eru fleiri læknar á hverja 100 þús. íbúa en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum þar sem staða þessa máls er hvað best. Læknisheimsóknir á íbúa eru hér fleiri en annars staðar á Norðurlöndum. Við Íslendingar erum ávallt meðal fyrstu þjóða til að taka upp nýjustu lyf. Hér er algengara og umfram allt almennara en annars staðar að fólk fari í flóknar læknisaðgerðir og hér er almennara en annars staðar að boðið sé upp á dýrar aðgerðir þar sem aðrar þjóðir nota ódýrari úrræði. Niðurstaðan er að óvíða eru lífslíkur betri en hér. Barnadauði hér er hvað lægstur í heimi og það er sannfæring mín að almenn þjónusta við sjúklinga er hér með mesta móti. Þetta hefur hvað eftir annað verið staðfest í alþjóðlegum samanburði.

Stjórnarandstaðan reynir stundum að draga upp þá mynd að upplausn og stefnuleysi ríki í heilbrigðisþjónustunni. Þið kannist við þá umræðu. Sú leiðsögn sem stefna mín byggist á felst í að heilbrigðisþjónustan á að vera réttlát, leiðin að læknum og hjúkrunarfólki á að vera öllum auðveld, heilbrigðisþjónustan á að byggja á samábyrgð þegnanna. Hún á að mestu leyti að vera kostuð af almannafé og þeir sem hafa mesta þörf fyrir þjónustuna eiga að ganga fyrir. Þessi stefna er stefna sem stjórnmálamenn hafa markað í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem samþykkt var á Alþingi í maí 2001.

Virðulegi forseti. Við getum ekki rætt um heilbrigðismál án þess að málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss skipi stóran sess þeirrar umræðu. Umræðan undanfarna daga og vikur hefur að mörgu leyti verið gagnleg en jafnframt hefur borið töluvert á upphrópunum og jafnvel rangfærslum sem þarft er og gagnlegt að leiðrétta. Umræðan um fjármál Landspítalans -- háskólasjúkrahúss, sem áður var Ríkisspítali og Borgarspítali, er alls ekki ný af nálinni. Ég hef tekið þátt í þeirri umræðu árum saman og get því borið tölurnar núna saman við fyrri tíma. Því fer fjarri að aðstæður nú séu allt aðrar og verri en áður. Ég vil því í upphafi gera grein fyrir þróun fjárveitinganna eins og þær blasa við.

Landspítali -- háskólasjúkrahús er stærsta heilbrigðisstofnun landsins, tæplega níu sinnum stærri en sú heilbrigðisstofnun sem kemur næst að umfangi. Sjúkrahúsið tekur til sín ríflega fimmtung þess fjár sem í ár er varið til heilbrigðis- og tryggingamála og þriðjung þess fjár sem varið er til heilbrigðismála. Á tímabilinu 1998 til ársins 2003 hækkuðu framlög til sjúkrahússins um tæpa 9 milljarða kr., eða um 61%. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 24% og launavísitala opinberra starfsmanna og bankamanna um 50%. Hin síðustu ár hefur háum fjárhæðum verið varið til að styrkja rekstrargrunn sjúkrahússins og sömuleiðis hefur mjög háum fjárhæðum verið varið til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda sjúkrahússins. Styrking rekstrargrunns sjúkrahússins nemur samtals um 3 milljörðum kr. frá árinu 2000. Þar af nemur styrking rekstrargrunnsins um 1.600 millj. kr. í ár og á síðasta ári. Aukafjárveitingar til sjúkrahússins nema samtals um 5 milljörðum kr. frá árinu 2000, þar af um 2.400 millj. kr. síðustu tvö árin.

Herra forseti. Þrátt fyrir að verulegu fé hafi verið varið til að styrkja rekstur sjúkrahússins hin síðustu ár og til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda er staðreyndin sú að fjárveiting yfirstandandi árs nægir ekki til að mæta óbreyttu umfangi eins og það var á nýliðnu ári. Við blasir að stjórnendur sjúkrahússins þurfa að ná niður rekstrargjöldum sjúkrahússins um 1.100--1.400 millj. kr. Gengið er út frá því að þessu markmiði verði náð á næstu tveimur árum.

Þegar rætt er um ástæður fjárhagsvanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss er nauðsynlegt að hafa þetta í huga. Eftirspurn eftir þjónustu hefur aukist en hún ræðst m.a. af framboði á nýrri tækni. Bráðameðferðum hefur fjölgað og kapp hefur verið lagt á styttingu biðlista. Til að mæta auknum afköstum hefur starfsliði sjúkrahússins verið fjölgað umfram samþykktir í fjárlögum. Launaútgjöld hafa aukist umfram verðlagsbætur fjárlaga. Mestu munar um breytta samsetningu vinnuaflsins og launaskrið en einnig hefur vinnumagn aukist og launatengd gjöld hafa hækkað. Ekki hefur tekist að mæta kostnaðarauka samfara stofnanasamningum og launaskriði.

Á undanförnum árum hafa útgjöld vegna lyfja og lækninga-, hjúkrunar- og rannsóknarvara aukist langt umfram fjárveitingar sem hækka í takt við almennt verðlag. Umræður um fjárhagsvanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss eru árviss viðburður og gildir það sama um forvera þess mikilvæga sjúkrahúss, þ.e. Ríkisspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur, áður Borgarspítala. Margsinnis hefur verið gripið til þess ráðs að fela hinum ýmsu nefndum og vinnuhópum að yfirfara fjármál og rekstur sjúkrahússins. Hafa niðurstöður og álit þessara fjölmörgu nefnda jafnan orðið til þess að rekstrargrunnur þess hefur verið styrktur og háum fjárhæðum hefur verið varið til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla. Að lokinni hverri þessara athugana á fjárhagsstöðu sjúkrahússins hafa menn staðið í þeirri trú að fjárframlög væru nú loksins í takt við rekstrarumfangið.

Sjaldan hafa liðið margir mánuðir þar til ástæða hefur þótt til að skoða erfiða fjárhagsstöðu sjúkrahússins að nýju. Með vísan til þessa er ekki óeðlilegt að stjórnvöldum þyki nú rétt að staldra við og skoða hvort ekki megi ná jafnvægi í fjármálum sjúkrahúsins með því að hagræða í rekstrinum. Það er engin nýlunda að bæði stofnanir ríkisins og fyrirtæki úti á hinum frjálsa markaði leiti leiða til að hagræða í starfsemi sinni. Það er eðli góðs rekstrar að stjórnendur leitist á hverjum tíma við að fá sem mest afköst og sem mest gæði fyrir það fé sem til er kostað.

Nokkrar af fyrirhuguðum hagræðingaraðgerðum á Landspítalanum hafa sætt gagnrýni. Ég hef í viðræðum mínum við stjórnendur spítalans lagt á það áherslu að öryggi sjúklinga sé vel tryggt og að allar ákvarðanir hafi það meginmarkmið að ná fram hámarkssparnaði með sem minnstum óþægindum fyrir sjúklinga og starfsmenn. Ég vænti þess að framkvæmdastjórn spítalans og stjórnarnefnd hafi þessi sjónarmið í huga þegar þeir gegna sínu erfiða hlutverki sem ekki er hér öfundsvert, að hagræða í rekstri spítalans. Ég tel að stjórnendur og starfsfólk hafi tekið á þessum málum af mikilli ábyrgð.

Virðulegi forseti. Það hefur verið kallað eftir skýrri stefnumörkun af hálfu heilbrigðisyfirvalda í málefnum spítalans. Stefnan er skýr. Landspítali -- háskólasjúkrahús er helsta bráðasjúkrahús landsins og tekur á móti sjúklingum með brýn vandamál sem krefjast úrlausnar strax. Hann er sérhæfðasta sjúkrahús landsins og innan veggja hans eru framkvæmdar allar flóknustu og erfiðustu aðgerðir og meðferðir sem í boði eru hér á landi. Hann er háskólasjúkrahús og ber ábyrgð á kennslu heilbrigðisstétta, þróun heilbrigðisvísinda og rannsóknarstarfi á sviði heilbrigðisþjónustu. Útfærsla þessarar stefnu í smærri atriðum er að sjálfsögðu á hendi stjórnarnefndar og framkvæmdastjórnar Landspítala -- háskólasjúkrahúss sem falið hefur verið það vandasama verkefni. Þannig hefur þessi verkaskipting verið í áraraðir. Ég fullyrði að það er þjóðarsátt um þessa stefnu og hún hefur ekki verið rofin.

Stjórnendur sjúkrahússins hafa óskað eftir því að fá nánari fyrirmæli frá ráðuneytinu um ákveðna þætti starfanna og er sjálfsagt að skoða það frekar. Í þeim tilgangi hef ég skipað sérstaka nefnd sem hefur verið til umfjöllunar að undanförnu, en nefndinni er ætlað að skerpa skil á milli heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Þessi nefnd leysir þó hvorki spítalann né ráðuneytið undan þeim skyldum sínum sem vikið er að hér að framan. Það má gera ráð fyrir að nefndin skili tillögum sem kunna að hafa í för með sér einhvern tilflutning verkefna. Það er þó ekki skynsamlegt á þessu stigi að gera ráð fyrir að þeim breytingum fylgi verulegur sparnaður fyrir þjóðarbúið í heild.

Það hefur verið gagnrýnt að undanförnu að nú skuli gripið til hagræðingaraðgerða en ekki beðið eftir niðurstöðu verkaskiptinganefndarinnar svokölluðu. Það væri hins vegar óábyrgt að mínu mati að grípa ekki til aðgerða nú þegar ef ætlunin er að ná niður kostnaði á þessu ári og það er óábyrgt að því leyti að óvissan í þessu efni fer verst með starfsmenn sjúkrahússins og skapar þá óvissu sem því fylgir. Henni verður að eyða. Það er mun gagnlegra að fara í aðgerðir strax því að þær yrðu að sjálfsögðu mun erfiðari síðar á árinu. Það er öllum ljóst að óvissan er slæm og eins og áður segir þarf að kynna aðgerðirnar strax svo að menn geti brugðist við og gert þær ráðstafanir sem þeir telja sig þurfa við.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir nokkrum af þeim atriðum sem efst hafa verið á baugi undanfarna daga og vikur, þar á meðal málefnum Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Þar hafa tíðkast hin breiðu spjót og yfirlýsingar um að heilbrrh. rjúfi nú þjóðarsátt, íslensku heilbrigðiskerfi sé stefnt í voða og fleiri slíkar staðhæfingar hafa heyrst víða en þær eru ekki í samræmi við þær aðgerðir sem kynntar hafa verið. Þær eru vissulega erfiðar og ég geri ekki lítið úr þeim, síður en svo. Það er ætíð erfitt þegar atvinna, þó að ekki sé nema eins eða tveggja eða 50, er undir. En þær eru til þess fallnar að tryggja að við getum áfram veitt þegnum landsins heilbrigðisþjónustu í þeim gæðaflokki sem við teljum vera nauðsynlegan.

Ég endurtek þakkir fyrir þessa umræðu og vænti samstarfs við þingmenn um heilbrigðismálin.