Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 13:54:00 (3643)

2004-01-29 13:54:00# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), EOK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Umræðan um heilbrigðismál hefur verið áberandi að undanförnu. Það kemur ekki á óvart.

Í upphafi máls míns er rétt að fara aðeins yfir þá kostnaðarþróun sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir á umliðnum árum. Það hefur komið fram hvað eftir annað að menn hafa ætlað að tölur OECD um kostnað af heilbrigðismálum á Íslandi séu rangar. Síðustu vikur hafa margsinnis komið í blöðum fullyrðingar um það. Sérstaklega hefur einn valinkunnur sómamaður haft forustu um það, fyrrverandi landlæknir, að hér væri um miklar villur að ræða, allt upp í eitt og hálft prósent af vergri landsframleiðslu. Af þeim ástæðum hefur fjmrn. haft samband við OECD, farið mjög nákvæmlega yfir þau uppgjör og niðurstaðan er alveg skýr: Uppgjör Íslands á heilbrigðiskostnaði er nákvæmlega réttur. Hann er nákvæmlega eins framreiknaður og í öllum öðrum hinum ríku þjóðum Evrópu. Það er engin villa þar í. Það eru hreinar kerlingabækur að halda því fram að við séum að rugla saman heilbrigðismálum og félagsmálum, eins og margsinnis hefur komið fram, nú síðast í ræðu síðasta ræðumanns. Þetta er einfaldlega rangt.

OECD breytti reglum sínum árið 2000 til að gera þetta ítarlegra en áður. Og upplýsingarnar um Ísland eru nákvæmlega réttar. Síðustu tölur um Ísland eru að við erum að eyða 9,88% af landsframleiðslu til heilbrigðismála. Það er fjórða hæsta talan í heiminum. Önnur hæsta talan í Evrópu. Þetta er athyglisvert og menn þurfa að átta sig á þessum staðreyndum. Evrópa er mjög sambærileg við Ísland að öllu leyti varðandi það hvernig við stöndum að heilbrigðismálum. Helstu frávikin eru þau að á Íslandi er hlutur sjúklinga mun lægri en í öðrum Evrópuríkjum. Í Evrópuríkjum er þetta rétt um 2% af vergri landsframleiðslu og hefur verið þannig um margra ára skeið. Síðustu tölur frá Íslandi sýna að hlutur sjúklinga er 1,53%, mun lægri.

Menn þurfa jafnframt að átta sig á því, sem er náttúrlega langstærsta frávikið ef við ætlum að meta þessar tölur, að Íslendingar eru langyngstir hinna ríku þjóða heimsins. Langyngstir. (SJS: Þeir búa nú líka á Íslandi.) Þeir búa flestir á Íslandi og kemur nú ekki á óvart, þeir eru ekki svo ungir þess vegna. Þeir eru það vegna þess að fæðingartala hefur verið mjög há hér um langan aldur. Íslendingar eru þó að eldast. Þeir voru að eldast á síðasta á ári. Eldri borgurum, miðað við 65 ára, fjölgaði um 2,4% á síðasta ári. Þrátt fyrir þetta erum við mun yngri þjóð en Svíar sem við margsinnis berum okkur saman við, líklega eru 15--18 ár þangað til við náum þeirri aldurssamsetningu þjóðarinnar sem Svíar búa við í dag.

Þetta verða menn að hafa í huga. Kostnaður í heilbrigðisþjónustunni fer mjög vaxandi eftir aldurssamsetningu. Það er talið að kostnaður við eldri borgara, þ.e. 65 ára og eldri miðað við heildina, sé þrisvar til fjórum sinnum hærri, sem er eðlilegt. Kostnaðurinn verður alltaf meiri og meiri og í mörgum tilfellum langmestur á síðasta aldursári fólks, síðasta ársins sem við lifum.

Þetta er kostnaður sem við vitum að mun koma yfir okkur í auknum mæli á næstu árum. Þess vegna er talan 9,88%, nýjasta talan miðað við landsframleiðslu, óhugnanleg fyrir okkur Íslendinga. Hún segir okkur að við verðum að átta okkur á því hvar við stöndum og því að heilbrigðisþjónusta okkar getur ekki verið jafnskilvirk og sums staðar annars staðar í Evrópu því miklu eldri þjóðir ná sambærilegum árangri og við þrátt fyrir að þeir séu miklu eldri, sbr. Þjóðverja, Svía, Frakka o.s.frv. Þetta verðum við að taka með í reikninginn. Þetta er staðreyndin sem við verðum að gera okkur grein fyrir.

Hins vegar liggur fyrir að tölur OECD eru óyggjandi um að á síðustu 10 árum hefur engin þjóð í heiminum aukið framlög sín til heilbrigðismála jafnmikið og Íslendingar. Engin. Þetta eru óyggjandi staðreyndir. Árið 1995 vorum við að koma út úr efnahagsvandræðum. Þá vorum við í 11. sæti í heiminum og 9. sæti í Evrópu. Við vorum strax árið 2000 komin í fjórða sætið í heiminum, annað sæti í Evrópu. Þetta eru staðreyndir. Hverju er þetta að þakka? Hvernig stendur á þessu? Þetta er vegna þess að við höfum búið við mjög blómlegt efnahagslíf. Það er ástæðan. Þess vegna höfum við getað aukið framlög til heilbrigðismála meira en nokkur önnur þjóð í Evrópu. (Gripið fram í.) Staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Við höfum verið að auka samneysluna meira en aðrar Evrópuþjóðir, að meðaltali um rúm 3% á undanförnum árum.

Þegar við lögðum stefnuna í ríkisfjármálunum fram nú í október þá gerðum við það á mjög skilvirkan hátt. Menn tóku eftir því og fóru í gegnum það. Ég gat ekki betur séð en að allir væru samþykkir þeirri stefnu og teldu hana ábyrga, við værum að fara inn í mjög mikið fjárfestingatímabil, værum að leggja nýjar stoðir að íslensku efnahagslífi og þess vegna þyrfti ríkið, til þess að vernda vinnumarkaðinn í heild, að gæta sín gríðarlega vel. Þess vegna var niðurstaðan sú að í langtímaáætlun okkar í ríkisfjármálum yrðum við að gæta mjög hófs varðandi vöxt samneyslunnar. Þar var mörkuð sú stefna sem skiptir öllu máli og er rauður þráður í því sem við verðum að gera á næstu árum, að hemja samneysluna, halda henni innan við 2% að hámarki að raungildi, virðulegur forseti --- að raungildi.

Skyldi einhver ætla, herra forseti, að þetta sé vondur kostur. Svo er alls ekki. Ef menn skoða hagvaxtarspár fyrir Evrópu á næstu árum þá eru afar fáar þjóðir heimsins sem geta með nokkurri vissu tryggt sjálfum sér það að á næstu þrem árum að samneyslan geti vaxið að raungildi um 2%. Það ætlum við okkur að gera og teljum okkur hafa forsendur til að gera, að halda samneyslunni niðri, að hún vaxi ekki um 3% eins og á undanförnum árum heldur um 2%. Þetta skiptir öllu máli. Það skiptir öllu máli þegar þjóðfélag fjárfestir jafnrosalega og Íslendingar munu gera á næstu árum að ríkið gæti sín, ríkið gæti að efnahagslífinu sem stendur undir þessu öllu saman.

Efnahagslífið hefur blómgast svo mjög á undanförnum árum að okkur hefur verið fært að auka heilbrigðisþjónustuna á Íslandi og leggja meiri fjármuni til hennar en nokkur önnur þjóð í Evrópu. Þetta efnahagslíf verðum við að vernda og þess vegna verðum við að gæta hófs í meðferð opinberra fjármuna. Rauði þráðurinn, meginstefið á næstu árum er að gæta þessa. Þetta er ekki vondur kostur, heldur góður kostur. Það er skýlaus vilji og skylda stjórnvalda að fara eftir þessari áætlun, að gæta sín í útþenslu ríkisins svo að rými verði fyrir framleiðsluna, að hún geti haldið áfram svo að við bjóðum ekki hættunni heim. Við gætum heildarhagsmuna vinnumarkaðarins.