Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:30:22 (3647)

2004-01-29 14:30:22# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti, með yðar leyfi:

,,Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.``

Svo er fyrir mælt í 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu sem tekur til heilsugæslu og heilbrigðiseftirlits, rannsókna, lækninga og hjúkrunar á sjúkrahúsum, endurhæfingarstarfs, tannlækninga og sjúkraflutninga.

Þetta er réttur okkar allra, tryggður í lögum. Heilbrigðisráðherra á að sjá til þess að þessi þjónusta sé okkur veitt og að allir Íslendingar skuli vera jafnir fyrir lögunum og njóta mannréttinda án tillits til efnahags. Réttur fólks til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði verður ekki löglega af því tekinn með niðurskurði á fjármagni og þjónustu sem skal vera eins góð og þekking og reynsla leyfir.

Undir þessum áherslum er heilbrigðisráðherra skylt að starfa. Honum er því mikill vandi á höndum að fylgja eftir þeirri stefnu sem forustumennirnir í ríkisstjórninni heimta. Að skera niður þá þjónustu sem vissulega kostar mikið fé, en hefur líka sýnt sig að vera góð fyrir fólkið sem þarf á því að halda að fá þjónustu á besta sjúkrahúsi landsins, þar sem best þekking og tækni er til staðar. Hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin geta ekki leyft sér að forgangsraða lífi og lækningu.

Fagstéttir verða að leggja það til sem til sparnaðar getur orðið án þess að það þýði verri þjónustu sem hættir lífi og limum. Það er mín skoðun að innan þess ramma sem ég hef lýst megi vissulega beita aðhaldi í útgjöldum. Til þess að beita faglegu aðhaldi þarf kostnaðargreining að liggja fyrir og útiloka þarf að sömu verk séu tví- og þríunnin með sama sjúkling, ef til vill vegna þess að upplýsingakerfi heilbrigðisþjónustunnar um viðkomandi sjúkling er ekki aðgengilegt milli allra þjónustustiga í kerfinu.

Ég hef lýst því viðhorfi við fjárlagaumræðu í þinginu að þótt ég sé hlynntur aðhaldi og góðri nýtingu á þeim fjármunum sem fara í heilbrigðismál er ég ekki stuðningsmaður þess að skerða nauðsynlega þjónustu við sjúka, aldraða og öryrkja. Þurfi auknar tekjur til þess að viðhalda góðri þjónustu við áðurnefnda þjóðfélagsþegna vel ég hiklaust að auka fé til ríkisins.

Á undanförnum árum hafa viðfangsefni hátæknisjúkrahúsa vaxið, fyrst og fremst vegna hærri aldurs fólks og nýrra meðferðarmöguleika. Til þess að bregðast við þessu þarf starfsfólk og fjármuni.

Stjórnendum spítalans er gert að lækka rekstrarkostnað hans um 1.400 milljónir á þessu og næsta ári. Þar af á þessu ári um 700 milljónir.

Framlag ríkissjóðs til reksturs Landspítala -- háskólasjúkrahúss er samkvæmt fjárlögum 24,8 milljarðar króna. Stjórnendur spítalans töldu sig þurfa 1,4 milljarða að auki til að halda rekstri spítalans eins og hann var á síðasta ári, en ríkisstjórnin hafnaði frekari fjárveitingum og lagðist gegn tillögum stjórnarandstöðunnar sem vildi koma til móts við fjárhagsvandann við afgreiðslu fjárlaga.

Laun og starfsmannatengdur kostnaður hefur numið um 70% af útgjöldum spítalans og því er ljóst að ekki er unnt að spara hundruð milljóna án þess að draga úr launakostnaði og fækka starfsfólki. Áætlað er að fjöldauppsagnir fækki ársverkum um 200 og nái til 500--600 manns. Fljótfærnislegar fjöldauppsagnir að kröfu ríkisstjórnarinnar sýna ráðleysi.

Samdráttur í starfsmannahaldi kemur að sjálfsögðu niður á allri þjónustu spítalans sem mun versna eftir því sem samdrátturinn eykst. Verri þjónusta er í andstöðu við lagaleg réttindi sjúklinga eins og ég gerði grein fyrir í upphafi ræðu minnar.

Tvær nefndir, skipaðar fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, hafa fjallað sérstaklega um stöðu og framtíð spítalans. Önnur nefndin á að skilgreina hlutverk stóru sjúkrahúsanna. Hinni er falið að hafa tilsjón með rekstri spítalans. Starfsfólk spítalans hefur réttilega bent á að æskilegt hefði verið að bíða með sparnaðaraðgerðir þar til niðurstöður þessara nefnda lægju fyrir.

Lyfjakostnaður hefur verið um 16% af heildarútgjöldum Landspítala -- háskólasjúkrahúss og nam 2,5 milljörðum króna á síðasta ári. Hækkaði um 250 milljónir frá árinu 2002 eða um 11,3%. Skýringin felst í aukinni lyfjanotkun og nýjum og dýrum lyfjum. Dýrust er lyfjameðferð við krabbameini enda um nýjustu og dýrustu lyf að ræða þar. Talið er að dýr og ný lyf skýri þriðjung af auknum kostnaði við lyfjanotkun. Nú er stefnt að því að lækka lyfjakostnað í heilbrigðisþjónustu almennt með betri lyfjastýringu og vali á lyfjum í innkaupum sjúkrahúsa. Sparnaður í lyfjanotkun ætti að nást án skertrar þjónustu við sjúka.

Verði haldið áfram þeim hörðu aðgerðum sem boðaðar eru á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi verður þjónusta við sjúklinga skert og öryggi þeirra ógnað. Fyrirsjáanlegt er að bráðaþjónusta minnkar og sérhæfð þjónusta við sjúklinga skerðist. Aðgengi að sjúkrahúsinu verður lakara. Þá er ljóst að niðurskurðurinn mun líklega valda vísindastarfi Landspítala -- háskólasjúkrahúss óbætanlegum skaða.

Stofnun á borð við Landspítala -- háskólasjúkrahús þarf að hlúa vel að starfsfólki sínu því mikil samkeppni er um hæft starfsfólk, ekki aðeins innan lands heldur einnig við útlönd.

Komið hefur fram að biðlistar á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi hafi styst og er það vel. Næsta víst er að biðlistarnir lengjast á ný vegna samdráttar í allri starfsemi haldi stjórnvöld aðförinni áfram.

Pólitískan vilja skortir til að marka stefnu um hlutverk og fjármögnun spítalans þar sem tillögur sérhæfðs starfsfólks eru lagðar til grundvallar. Langtímamarkmiðin eru óskýr og enginn sýnilegur árangur af sameiningunni á sínum tíma, samanber skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Landspítali -- háskólasjúkrahús er í dag þróað hátæknisjúkrahús sem við megum vera stolt af. Heilbrigðiskerfi okkar stenst alþjóðlegan samanburð. Almenningur krefst þess að þessari aðför að starfseminni verði hætt.