Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:34:10 (3660)

2004-01-29 15:34:10# 130. lþ. 53.7 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum.

Markmið frv. er að fela Siglingastofnun Íslands ábyrgð á framkvæmd siglingaverndar hér á landi, að heimila stofnuninni að birta skýringartexta við alþjóðasamninga, svokallaða kóða, á ensku á heimasíðu sinni og loks að styrkja gjaldtökuheimildir stofnunarinnar.

Þriðjudaginn 27. janúar sl. lagði ég fyrir ríkisstjórn frv. til laga um siglingavernd sem miðað er við að taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2004. Þann dag taka gildi nýjar reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um siglingavernd. Reglunum er ætlað að fyrirbyggja hryðjuverk og aðrar ógnanir sem þjóðfélaginu gætu stafað af skipum í alþjóðasiglingum og höfnum sem þjóna þeim.

Í frv. er gert ráð fyrir að Siglingastofnun Íslands annist framkvæmd siglingaverndar hér á landi. Því er hér lagt til að bæta því inn í lista 3. gr. laganna þar sem talin eru verkefni Siglingastofnunar. Ég mun gera nánari grein fyrir þeim skuldbindingum og ráðstöfunum sem siglingavernd felur í sér og hvernig er staðið að innleiðingu þeirra hér á landi þegar mælt verður fyrir frv. hér í þinginu um siglingavernd sem vonandi verður fljótlega. Hér er þó fyrst og fremst verið að breyta lögunum um Siglingastofnun og fela henni þetta verkefni.

Á undanförnum árum og áratugum hefur þróun alþjóðlegra reglna á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar miðað að því að minnka umfang texta alþjóðasamninga og vísa þess í stað í aðrar gerðir, einkum svokallaða kóða, sem eru skuldbindandi. Þessar breytingar munu þó ekki fela í sér breytingar á íslenskri lagahefð, sem er nú nauðsynlegt að taka sérstaklega fram, um birtingu stjórnvaldserinda. Í þessu felst töluvert hagræði við að halda utan um þessa samninga sem eðlilegt er að nýta sér við birtingu þeirra.

Með frv. er kveðið á um að Siglingastofnun Íslands birti á heimasíðu sinni alþjóðasamninga þá sem Ísland er aðili að á sviði siglinga, auk þess sem þeir verða birtir í C-deild Stjórnartíðinda eins og lög gera ráð fyrir, sbr. lög nr. 23/1943.

Nýmælin í frv. felast einkum í því að lagt er til að stofnuninni verði heimilt að birta á ensku alla gildandi viðauka og kóða svokallaða sem útfæra samningana og uppfæri þá jafnóðum og þeir breytast, sem gerist býsna oft. Hér er um að ræða sérfræðitexta sem einungis varða mjög fáa einstaklinga á landinu öllu en umfang kóða þessara er hins vegar a.m.k. 6.400 blaðsíður og eru uppfærðir með tilheyrandi breytingum á tveggja ára fresti. Það gefur augaleið að miklir fjármunir sparast við þýðingu þar sem fyrrnefndar blaðsíður taka oft breytingum.

Rétt er að benda á að þessi leið til birtingar alþjóðlegra kóða og viðauka við alþjóðasamninga á sér fyrirmyndir í t.d. loftferðalögunum og lyfjalögum. Jafnframt má geta þess að í frv. umhvrh. um verndun hafs og stranda sem lagt var fram í þinginu fyrir jól er lagt til að birta kóða og reglur um flutning hættulegs varnings með skipum með tilvísun í enskar útgáfur efnislista og staðla sem hlotið hafa samþykki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Auk framangreindra atriða miðar frv. að því að styrkja gjaldtökuheimildir Siglingastofnunar. Lagt er til að ákvæði um gjaldtöku stofnunarinnar verði gerð skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hefur heimild til að taka gjald. Í frv. er miðað við að Siglingastofnun sé og verði fjármögnuð með þjónustugjöldum, auk framlaga úr ríkissjóði. Gjöld samkvæmt 1.--3. tölul. frv. eru þjónustugjöld og taka því mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og mega gjöld ekki vera hærri en nemur þeim kostnaði.

Virðulegi forseti. Ég vil leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgn. til meðferðar.