Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:53:48 (3663)

2004-01-29 15:53:48# 130. lþ. 53.7 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það mál sem við erum að ræða eigi fullan rétt á sér í þeim búningi sem það er og það sé að mestu leyti til bóta. Hins vegar er sú umræða sem hér hefur farið fram um gjaldtöku og eftirlit Siglingastofnunar annars vegar og einkaaðila hins vegar, eftir að þeim hefur verið falið það hlutverk --- ég óttast dálítið að við séum að búa til tvöfalt kerfi, við séum að búa til eftirlit með eftirlitinu. Ég tel að það þurfi að fara mjög varlega í því hvert við stefnum í þeim efnum. Það er mjög auðvelt að tvöfalda kostnaðareftirlit með skipum úr landi ef þetta á að ganga fram með þeim hætti að sérstakar eftirlitsstofnanir og skoðanastofur fylgi eftirlitinu eftir og síðan eigi Siglingastofnun að koma og taka það út með hærri gjaldtöku eins og hér er verið að opna gjaldtökuheimildir fyrir. Ég vil því vara við því að við göngum fram með að taka upp eftirlit og síðan eftirlit með eftirlitinu sem, þegar niðurstaðan er fengin, er orðið dýrara og jafnvel ekkert skilvirkara.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að Siglingastofnun og siglingastofnunarmenn, eftirlitsmenn, hefðu litla reynslu eða takmarkaða þekkingu á eftirlitinu, verð ég að segja að af minni reynslu við að hafa bæði verið við byggingu skips annars vegar í Japan og hins vegar við endurbyggingu í Póllandi, að ég varð ekki var við annað en að þeir menn sem komu frá Siglingstofnun að taka út skipin og fylgjast með hvernig að væri staðið stæðu vel að sínum störfum. Það er ekki þar með sagt að ég fullyrði að sá framgangur og það eftirlit sem framkvæmt var hafi að öllu leyti verið nauðsynlegt því að þykktarmælingar á skipum og úttekt á suðum er ekki flókið. Þykktarmælingar eru tiltölulega einfaldar og síðan eru teknar sérstakar ljósmyndir af suðum o.s.frv. Það ætti því að vera hægt að ganga að þessum upplýsingum, skoða þær og sannreyna. Eins og eftirlitið kom mér fyrir sjónir tel ég að því hafi verið ágætlega sinnt af siglingastofnunarmönnum. Ég skal ekki fullyrða um þann þátt málsins sem snýr að byggingu plastskipa úr plastgerðarefnum og um þekkingargrunn þar. Ég hef heyrt ýmsar sögur af því að menn væru ekki mjög sáttir við hvernig það eftirlit hefði gengið fyrir sig og væri mjög fróðlegt að fara í gegnum það.

Samgn. fær þetta mál til umfjöllunar og við getum vissulega tekið til umræðu þar þau mál sem við teljum snúa að þeim þætti sem hér er opnað á varðandi gjaldtökuna og hvort hér sé í raun og veru verið að opna á heimildir til tvöfaldrar gjaldtöku sem ég vara alveg sérstaklega við. Að öðru leyti held ég að það frv. sem hæstv. samgrh. mælti fyrir sé eðlilegt. Varðandi þýðingarskylduna tel ég rétt að auðvelda þá framsetningu með því að vera ekki að þýða kóða sem eru vissulega að taka mjög miklum og örum breytingum.