Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:58:22 (3664)

2004-01-29 15:58:22# 130. lþ. 53.7 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég má til með að skýra betur hvað ég átti við af því að ég tel að hv. þm. hafi misskilið hvað ég var að fara. Ég var ekki að setja út á fagþekkingu eða störf þeirra sem hafa unnið fyrir Siglingastofnun við skoðun á skipum. Ég var að benda á að mér er kunnugt um að Siglingastofnun ætlar ekki að gera þær kröfur til skoðunarmanna sem verða hjá einkavæddu skoðunarstofunum að þeir hafi fagþekkingu á sviði skipasmíða og það finnst mér mjög vont.

Hins vegar benti ég á að Siglingastofnun hefði aldrei gert þá kröfu til skipasmíðastöðva í landinu að þeir sem þar bæru ábyrgð á framkvæmdum hefðu faglega þekkingu. Það var það sem ég átti við svo að það misskiljist nú ekki og hefði þurft að taka á því máli áður en menn fóru í þann leiðangur sem þeir eru komnir í núna, að einkavæða þetta allt saman. Mér finnst afskaplega dapurlegt að þurfa að tala um þessa hluti því mér finnst að hið opinbera beri ábyrgð á því að faglegri þekkingu og vilja manna til þess að læra skipasmíðar á Íslandi og halda uppi þeirri atvinnugrein hafi hrakað, að hið opinbera beri raunverulega ábyrgð á því að virðing fyrir þessari atvinnugrein hefur ekki verið sem skyldi. Það skal engan undra þar sem engar kröfur eru gerðar af hendi hins opinbera og engar sambærilegar kröfur til þessarar iðngreinar og þær sem gerðar eru t.d. til byggingariðnaðarins í landinu þó að þetta séu fullkomlega sambærilegar iðngreinar. Svo kemur hæstv. ráðherra og einkavæðir eftirlitið með þessu.