Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 16:17:28 (3669)

2004-01-29 16:17:28# 130. lþ. 53.7 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það liggur alveg fyrir af minni hálfu að það frv. sem við fjöllum um og varðar siglingaverndina, um það er ekki deilt og ég er ekki að deila við hv. þm. Jóhann Ársælsson um það. Hins vegar kemur hann í andsvar vegna þess að hann vill koma að aðvörunarorðum um kostnað við eftirlit með skipum og ég get tekið undir það að við þurfum að gæta hófs í því. En það liggur alveg ljóst fyrir af minni hálfu að það er ekki eðlilegt að skattborgarar niðurgreiði eftirlit með skipum, grundvallaratvinnuvegi okkar, sjávarútvegi, þegar við erum að fylgja alþjóðlegum reglum um sjóhæfni og aðra þætti sem lúta að öryggismálum sjófarenda. Ég tel að það væri því frekar óeðlilegt ef við létum ekki viðkomandi útgerðir greiða eðlilegan kostnað fyrir það eftirlit.

Ég held að þegar á allt er litið sé kostnaður útgerðanna vegna skipaeftirlitsins smávægilegur miðað við annað sem þar fellur til. En auðvitað safnast þegar saman kemur. Ég tel að samgrn. hafi lagt sig mjög fram við að reyna að tryggja að kostnaður útvegsins yrði hóflegur en sanngjarn þegar kemur að þeim hlutum sem varða eftirlit með skipunum.