Aldarafmæli þingræðis og heimastjórnar

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:02:17 (3672)

2004-02-02 15:02:17# 130. lþ. 54.95 fundur 284#B aldarafmæli þingræðis og heimastjórnar#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Forseti (Halldór Blöndal):

Háttvirtir alþingismenn. Þess var minnst í gær að 100 ár voru þá liðin frá því að fyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein, tók til starfa. Þau tímamót marka upphaf Stjórnarráðs Íslands og framfarasóknar á öllum sviðum þjóðlífsins síðustu 100 árin. Þessi tímamót eru einnig markverð í sögu Alþingis því að á þessum degi, 1. febrúar 1904, var þingræðisreglan innleidd í stjórnskipan okkar, þ.e. sú regla að ráðherrar og ríkisstjórn sitji ekki í trássi við vilja meiri hluta Alþingis. Á hana reyndi þegar 1909 og þá reglu teljum við til grundvallarreglna þó að ekki sé hún skýrlega skrifuð í stjórnarskrána.

Ég minntist þess með nokkrum ávarpsorðum við upphaf þingfundar 3. október að þá voru liðin 100 ár frá því að heimastjórnarlögin voru staðfest af konungi. Í dag færi ég ríkisstjórn og Stjórnarráði Íslands árnaðaróskir Alþingis á þessum merku tímamótum.