Málefni Þjóðminjasafns

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:26:18 (3689)

2004-02-02 15:26:18# 130. lþ. 54.1 fundur 276#B málefni Þjóðminjasafns# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Mörður Árnason gat réttilega um kom fram í viðtali við mig í Morgunblaðinu að ég hefði frestað því að opna Þjóðminjasafnið. Það var búið að ákveða að það yrði opnað 22. apríl, á sumardaginn fyrsta. Ef ég hefði haldið í þá dagsetningu hefði ég einfaldlega farið út í að eyðileggja mjög merkar fornminjar því að hvorki skápar né fleira er tilbúið. Við erum að fá skápa. Ég veit vel að hv. þm. er vel að sér í þessum efnum og fylgist greinilega vel með málefnum Þjóðminjasafnsins. Þar af leiðandi hlýtur hann að vita að það eru mjög mikilvægir skápar sem þarf að smíða utan um þá fornmuni sem við ætlum að sýna í Þjóðminjasafninu. Þeir skápar koma því miður ekki fyrr en í byrjun júní. Að öllu samanlögðu taldi ég því rétt að fresta opnuninni. Það mesta sem ég get fullyrt í þeim efnum er að hún verður í sumar, en því miður eftir 17. júní. (Gripið fram í.)