Samkeppnisstaða háskóla

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:35:08 (3696)

2004-02-02 15:35:08# 130. lþ. 54.1 fundur 277#B samkeppnisstaða háskóla# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er kannski ósanngjarnt að ætlast til að hæstv. menntmrh. komi með tölur í óundirbúnum fyrirspurnum. Ég mun hugleiða hvort ég breyti þessum spurningum yfir í skriflegar fyrirspurnir til að fá þessar tölur fram. En hitt er auðvitað afar mikilvægt, að við getum rætt um þessi mál efnislega.

Það er mjög villandi þegar málsmetandi menn koma með yfirlýsingar af því tagi sem tekist er á um í fjölmiðlum núna. Ég hefði viljað heyra hæstv. menntmrn. hrekja þær staðhæfingar. Það er beinlínis rangt sem Runólfur Ágústsson sagði í fréttum í gær eða fyrradag, að á fjárlögum séu ætlaðir 3,3 milljarðar kr. í rannsóknir og af þeim 3,3 milljörðum kr. sem Alþingi veiti til rannsókna við íslenska háskóla renni eingöngu 35 millj. kr. til sjálfseignarstofnana á háskólastigi en restin fari til hina opinberu háskóla. Þessi fullyrðing er röng. Það er greinilegt að hér inni í eru allar sértekjur þessara háskóla. Það er auðvitað nauðsynlegt að hæstv. menntmrh. hreki svona fullyrðingar en taki ekki undir þær.